Heilbrigðisþjónusta á Krossgötum
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var alls engin velferðarstjórn í heilbrigðismálum. Hún gekk beint inn í niðurskurðarstefnu fráfarandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í heilbrigðismálum. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG 2009 kokgleypti og framkvæmdi í blindni kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um gífurlegan niðurskurð og kerfisbreytingar í heilbrigðismálum. Krafa AGS var auk þess sú að framlög til þess málaflokks yrðu innan marka sem þeir settu um hlutfall af þjóðarframleiðslu, en þau voru langt undir því sem viðgengst í raunverulegum velferðarsamfélögum.
Enn sendir AGS tóninn um frekari niðurskurð til heilbrigðismála. Kári Stefánsson gerir þessum málum vel skil í grein í Mbl. sl. mánudag. „ Hvenær drepur maður ( ríkisstjórn) mann“) og tek ég undir með honum um alvarleika málsins. Lækka frekar skatta en bæta heilbrigðiskerfið
Kerfisbreytingar og varanlegur niðurskurður í skjóli kreppu
Vissulega voru efnahagsmál þjóðarinnar í uppnámi eftir hrunið, en þeim mun meiri nauðsyn var til að forgangsraða í þágu öryggis og velferðar. Heilbrigðismálin og síðan löggæslan voru þeir málaflokkar sem lentu langharðast undir hnífnum.
Niðurskurðurinn var í fyrstu hlutfallslega mestur á landsbyggðinni allt upp í 40% á einstaka stofnunum. Hún kallaði fram fjöldamótmæli íbúanna, hvort heldur það var á Sauðárkróki, Húsavík, Blönduósi, Ísafirði, Selfossi eða Vestmannaeyjum. Fólk var reiðubúið að taka á sig byrðar vegna efnahagsvandans en gat ekki samþykkt að hrunið væri nýtt til þess að koma á kerfisbreytingu og varanlegri skerðingu heilbrigðisþjónustu.
Ég kynntist áhrifum niðurskurðarins á Landsspítalanum í veikindum dóttur minnar og því óöryggi sem bæði sjúklingar og starfsfólk bjó við vegna lélegs tækjabúnaðar, skorts á starfsfólki, vinnuálags, stöðugra „hagræðinga“ og uppsagna í starfi. Ég var ekki sammála þessari stefnu ríkisstjórnarinnar og forgangsröðun og hún tók mig sárt. Svo var um fleiri þingmenn VG og voru lagðar fram formlegar breytingartillögur í þingflokknum í þágu heilbrigðismála en þær náðu ekki fram.
Gæluverkefni í stað heilbrigðisþjónustu
Hinsvegar voru það önnur gæluverkefni einstakra ráðherra í ríkisstjórn sem náðu fram eins og rakið er í grein Kára Stefánssonar. Hversu harkalega gengið var fram í niðurskurði og skipulagsbreytingum í heilbrigðismálum var ein af ástæðum þess að bæði Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir sögðu sig úr þingflokki VG og féllu frá stuðningi við „velferðarríkisstjórnina“. Þegar svo verja átti milljörðum króna til verkefna eins og Vaðlaheiðarganga, ríkistyrkja til erlendrar stóriðju og ESB umsóknar í stað heilbrigðismála var mér öllum lokið. Ég gat ekki stutt fjárlagafrumvarp sem gekk svo þvert gegn mínum hugsjónum, gegn kosningaloforðum og stefnu flokksins ég þá tilheyrði og gegn almannaheill í landinu.
Heilbrigðisþjónusta en ekki bara rekstur
Umræðan um stöðu heilbrigðismála á Íslandi er komin á suðupunkt og ekki að ástæðulausu. Hjúkrunarfræðingar áhyggjufullir : Gæti valdið óbætanlegu tjóni
Heilbrigðisstéttirnar hafa verið í fararbroddi: læknar, hjúkrunarfólk, geislafræðingar, ljósmæður, sjúkraliðar, lögreglumenn, almennt starfsfólk, hafa tekið þessa umræðu í krafti þekkingar sinnar og reynslu á vetvangi. Það er þjónustan og öryggi hennar sem brennur á þessu ágæta fólki. Stjórnvöld hafa á hverjum tíma reynt að gera heilbrigðismálin að deilu um kaup og kjör fólksins sjálfs en forðast að taka á umræðunni um stöðu heilbrigðismála; hvaða þjónustu við sem þjóð viljum setja á oddinn, sækja fram og verja.
Komið að örlagastundu í heilbrigðisþjónustu landsmanna
Sú spurning er pólitísk en ekki kjaraleg , þótt vissulega tengist hún forgangsröðun fjármuna. Reynslan af síðustu ríkisstjórn sýnir að það hefur litlu breytt til þessa, hvort það er svo kölluð vinstri eða hægri stjórn í landinu, hvað heilbrigðismálin varðar, því miður.
Sú ríkisstjórn sem nú situr verður að stíga í alvöru fram og segjast ætla að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar í landinu en ekki horfa á hana sem ískalt rekstrarverkefni með reikningslegt „debet og kredit“. Þessi spurning tekur til allrar heilbrigðisþjónustunnar í landinu, hvort heldur er landsbyggðin, höfuðborgin, sjúkraflutningar, Reykjavíkurflugvöllur, Landspítalinn eða pólitísk stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum.
Ný ríkisstjórnin getur ekki skýlt sér á bak við að gera þurfi nýjar úttektir. Það er komið að örlagastundu í íslenskri heilbrigðisþjónustu, nú þarf aðgerðir.
Jón Bjarnason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.