Hafnir á Skaga – verbúðarminjar og landbrot af völdum sjávar
Sumarið 2008 skráðu starfsmenn fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga minjar á Höfnum og Kaldrana á Skaga. Skráningin var hluti af heildarskráningu fornleifa í Skagabyggð, sem sveitarfélagið Skagabyggð stóð svo myndarlega að, á árunum 2008-2012. Fjölmargar minjar liggja meðfram strandlínu Hafna en þar var umfangsmikil útgerð um aldir og voru um 100 minjar skráðar meðfram strandlengjunni 2008. Við skráninguna var ljóst að þarna er víða mikið landbrot af völdum sjávar og það hafði bersýnilega sett mark sitt á minjar við sjávarbakkann og var því stór hluti minjanna metinn í hættu af þeim sökum.
Gripur úr hvalbeini. Hlutverk óþekkt og
allar ábendingar vel þegnar.
Árið 2021 var Minjaverði Norðurlands vestra gert viðvart um að gripir væru farnir að tínast úr rofnum sjávarbakka við Rekavatnsós. Starfsmenn Minjastofnunar fóru þá að Höfnum og hreinsuðu snið og mældu upp minjar. Í ljós komu umfangsmikil ruslalög og m.a. fannst töluverður fjöldi dýrabeina, aðallega fiskbein og hvalbein, gripir úr hvalbeini og fjöldi koparþynna.
Í kjölfar rannsóknar Minjastofnunar sóttu Fornleifastofnun Íslands og fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga í sameiningu um styrk í Fornminjasjóð til að gera frekari rannsóknir á Höfnum og Kaldrana. Markmiðið var að meta umfang landbrots, endurmæla minjar sem hafa orðið fyrir raski og hreinsa og skoða snið á stöðum sem eru hvað mest útsettir fyrir rofi. Styrkur fékk til verkefnisins og í ágúst 2022 voru pistlahöfundar við rannsóknir á Höfnum og Kaldrana í hálfa aðra viku.
Bátasaumur með viðarleifum sem fannst í sniði á Höfnum.
Á þeim tíma var umfang rofs meðfram strandlínu Hafna metið og skráð, minjar sem brotið hefur af voru mældar og tugir metra af sniðum í rofna sjávarbakka voru hreinsuð, skoðuð og teiknuð. Mest landbrot á sér stað á austanverðri strandlengjunni, framan við Hafna-, og Piltabúðir en minna við Þrándarvík og Rifsbúðir. Ekki er unnt að meta nákvæmlega hversu mikið er farið af strandlínunni en í einhverjum tilvikum eru það margir metrar, jafnvel tugir þar sem mest er. Fjöldi minja er horfinn en það sést m.a. á því að sárafá naust finnast, bæði á Hafna- og Piltabúðum en naust eða uppsátur finnast jafnan fremst á sjávarbökkum þar sem útræði er.
Draglóð sem fannst í sniði á Höfnum.
Þegar snið voru skoðuð kom í ljós fjöldi sjóbúðatófta sem ekki sást á yfirborði en þarna hafði verið byggt á sama stað um aldir. Búðirnar voru byggðar úr torfi eingöngu eða torfi og grjóti og fannst m.a. steinlagt gólf í einni þeirra. Fjöldi gripa fannst við rannsóknina og var varðveisla þeirra, sem og timburs, góð. Meðal þess sem fannst voru gripir úr hvalbeini og á ákveðnu svæði fannst einnig hvalbeinsspænir sem bendir til þess að gripirnir hafi verið unnir á staðnum. Síðar kom í ljós að einmitt þessi fundur á hvalbeinsspæni var sérlega spennandi vegna þess að ummerki um vinnslu á gripum hafa, fram til þessa, ekki fundist annars staðar á Norður-Atlantshafssvæðinu. Frumniðurstöður rannsóknar benda auk þess til að hugsanlega hafi verið ákveðin sérhæfing á milli svæða, a.m.k. á Hafnabúðum en það verður skoðað nánar ef styrkur fæst til framhaldsrannsókna.
Gripir úr hvalbeini standa út úr sniði sem verið er að hreinsa.
Sótt hefur verið um styrki til áframhaldandi rannsókna á Höfnum og er það von okkar að geta rannsakað ítarlegar þá minjastaði sem voru skoðaðir árið 2022. Landbrot af völdum sjávar mun aukast í framtíðinni, m.a. vegna hækkandi sjávarstöðu og aukinnar stormvirkni sem mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir minjar við sjávarsíðuna. Minjasvæðið á Höfnum er gríðarlega spennandi en þaðan hefur verið stundað útræði, líklega allt frá landnámi og fram til loka 19. aldar og þarna er mikil saga að fara í sjó og því nauðsynlegt að bregðast hratt við.
@Bryndís Zoëga, Lísabet Guðmundsdóttir og Lilja Laufey Davíðsdóttir
Áður birst í 8. tbl. Feykis 2023
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.