Hæglætis veður en mest norðlægar áttir með ágætis köldu vori
Spámenn Veðurklúbbs Dalbæjar hittust þann áttunda maí sl. til að rýna í veðurútlit mánaðarins en í fundargerð segir að vegna veikinda hafi fundurinn verið í seinna lagi. Að þessu sinni voru mætt þau Haukur Haraldsson, Bergur Þór Jónsson, Hörður Kristgeirsson, Magnús Gunnlaugsson, Sigríður Hafstað, Guðrún Skarphéðinsdóttir, Jón Garðarsson, Kristján Loftur Jónsson og Þóra Jóna Finnsdóttir.
„Hæðarennan austan við Grænland náði að hafa meiri áhrif á veðrið undanfarið en við höfðum gert ráð fyrir. Núna teljum við að nýtt tungl fái loksins að hafa áhrif á veðrið því það virðist ætla að verða bara svipað út mánuðinn og verið hefur undanfarna viku hérna á Stór-Dalvíkursvæðinu, nefnilega hæglætis veður en mest norðlægar áttir með ágætis köldu vori.
En um Hvítasunnuhelgina gæti aðeins kólnað og ef einn draumurinn stenst þá verða annað hvort skriðuföll eða jafnvel jarðhræringar á þeim tíma, en þó ekkert hræðilegt. En í framhaldi af því þá rifjuðum við upp upplýsingar um Dalvíkurskjálftann sem hristi allrækilega þessar slóðir þann annan júní árið 1934.
Þá kom einnig stór skjálfti úti á Skagafirði 1963 sem við skoðuðum upplýsingar um.
Við skoðuðum hvar hafísinn hafi haldið sig undanfarin mánuð og búumst ekki við neinum ísbjörnum hingað til lands þetta árið,“ segir í fundargerð Dalbæinga.
Fleira var spjallað og spekúlerað en það fáum við víst ekki frekari upplýsingar um, en þau sem geta og vilja eru hvött til að mæta á næsta fund til að taka þátt og fræðast frekar um Veðurklúbbinn, fundina og hvað fer þar fram. Upplýsingar má efalaust finna þegar nær dregur á Facebook en þar er Veðurklúbburinn kominn með heimasíðu sem þegar hefur vakið mikla athygli. „Mikið er dásamlegt hve margir hafa nú þegar sýnt því áhuga að tengjast okkur á andlitsbókinni, eftir þennan stutta tíma síðan við ákváðum að flækjast í netið þá eru rúmlega 1250 manns búin að vingast við okkur og þökkum við kærlega fyrir stuðninginn og áhugann,“ skrifar ritari klúbbsins og kveður með kveðskap að vana.
Ef þú ferð að skjálfa
þú þyrftir þig þjálfa.
Því það er sko undur
að þekkja ekki sundur
kálfana sína og álfa.
Höf. Bjór.
Þegar að maí var svo mildur
þá sagði hún ungfrú Grimmhildur:
Nú vorverkin kalla
sko á ykkur alla
að gera ykkur skömm eða skyldur.
Höf. Bjór.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.