GRÓTTAKVÖRNIN

Guðríður B. Helgadóttir
Guðríður B. Helgadóttir

„Fornar sagnir herma, að jötnameyjar tvær, þær Fenja og Menja gerðu það sér til gamans að kasta tveim gríðarstórum hellum úr undirheimum upp í Miðgarð. Einhver gerði kvarnarsteina úr hellunum og gaf þær Fróða kóngi. Hann lét gera úr þeim Gróttakvörnina.  Fenja og Menja voru teknar til fanga í styrjöld í Svíþjóð og seldar sem ambáttir Fróða konungi, en hann lét þær snúa Gróttakvörninni. Þær mólu konungi gull og öryggi en þjóð hans frið og velvilja meðal manna.“  En ágirndin og græðgin náðu tökum á Fróða konungi, svo hann rak áfram skessurnar og unni þeim að síðustu  hvorki svefns né matar. Þá ærðust þær og mólu eld og dauða yfir hann og létu kvörnina ganga svo hratt að steinarnir molnuðu og allur búnaður hrundi í rústir.

 Grótta kvörnin er enn og aftur komin í gang. Hvarvetna má sjá að gullið hefur ært þá sem drottna, svo þeir ágirnast alltaf meira og meira og mala ófriðareld og dauða yfir heimsbyggðina. Við  hér á eylandinu úti í nyrstu Atlandsálum, förum engan varhlut af þeirri óheillaþróun. Okkar drottnandi yfirvald, einkagróðahyggjan og græðgin, sést ekki fyrir,  hefur týnt öllu sambandi við heilbrigt og eðlilegt líf og lífkeðju náttúrunnar. Ríslar með bankakerfið eins og kauphallaruppboðs fyrirtæki í þágu vildarvina, en mergsýgur almenning með okurvöxtum á lífsnauðsynleg húsnæðislán og rekstrarkostnað heimilis. 

Okkar þjóðfélagsgerð er að ganga í gegnum mestu  breytingar og umbyltingu allra tíma. Úr rót grónu bænda sjálfsþurftarþjóðfélagi, með fiskveiðar og hlunnindanýtingu að undirstöðu. lengi vel strjálar skipaferðir og ótryggt vöruframboð frá útlöndum. Á seinni hluta síðustu aldar breyttist ört bæði samgöngur, verslunarhættir og þróun í atvinnuháttum. Bændaframleiðsluþjóðfélagið gisnaði en kaupstaðarformið þéttist, lengi vel með góðri samvinnu af beggja hálfu, því hvorugt getur án annars verið. En nú er svo komið að HÖFUÐBORGIN þykist orðin sá stóri bróðir, sem lítur niður á landsbyggðafólkið og landið með gæðum þess og gagni. Að þeirra mati, Þessa „útkjálka, afdali og rassborur fortíðarhyggjunnar“ og landsbyggðarfólks. Drottnunarvaldið dregur til sín atvinnufyrirtækin, útgerðina, menntastofnanir og heilbrigðisþjónustuna, undirstöðuna að byggð og lífi í landinu. Því auðvitað fer fólkið, þegar lifibrauðið er frá því tekið, heilsuþjónusta  og skólaganga flutt af svæðinu, ásamt flestum öðrum  samþjónustu stofnunum. Þó að landið sé gjöfult og kært,  ræturnar djúpar og sterkar, er það  flestum mikil eftirsjá, skaði og sársauki að fara og sjá sína heimabyggð auða og yfirgefna. Þurfa síðan að búa um sig með ærnum kostnaði á þessu malbikaða og gegnum boraða útkjálkahrauni á suðurnesjum, þangað sem flestum er stefnt. Þar er þó engin fyrirhyggja með húsnæði né atvinnu, okurleiga og uppsprengt verð á því litla sem býðst og margir á vonarvöl.      

  Það er góðæri, segir ríka yfirstéttin, selur sjálfum sér banka með baktryggingu á aflandseyjum, flytur sjóði samtryggingar úr einum vasa í annan og síðan úr landi í eigin þágu, en leggur kapp á að eyðileggja innanfrá alla samfélagsþjónustu. Hundsa uppbyggingu og endurreisn heilbrigðisþjónustu en greiða götu fyrir einkareksturs gróðasjónarmið á kostnað bágstaddra hjálparþega. Fjársvelta vegagerð og stefna á að endurbyggja með staðbundnum gjöldum vegfarenda um hvern afmarkaðan bút sem gerður er akfær í vegakerfinu. Margsköttuð ökutæki látin bera uppi annan kostnað í kerfinu á öðrum sviðum, í stað þess að nota þær tekjur í viðhald vega. Ráðherra-VALDIÐ látið fara sínu fram án óþægilegra afskipta þings og þjóðar vilja. Lýðræðið sniðgengið af fremsta megni gjörspilltra stjórnarhátta. Vaxandi ferðamannafjöldi látinn valsa stjórnlaust um og yfir landið án fyrirhyggju. Það er að segja, þeir sem sleppa úr klóm okrara út fyrir borgarmörkin. Nú er ferðamanna þjónustan orðin aðal atvinnuvegur og tekjulind þjóðarinnar, en í staðinn fyrir skipulag og uppbyggingu þess atvinnuvegar og ráðstöfun tekna þar af til ágóða fyrir samfélagið, er í ráðagerð að safna þeim tekjum í enn einn sjóðinn í útlendum peningahólfum. Til vara fyrir hina ef illa færi t.d.  við annað hrun bankakerfis, eða aðra óáran.

Að reisa við heilbrigðiskerfið og  greiða úr umferðavandræðum hvarflar ekki að þessum ábyrgðarlausu göslurum í samfélagsþjónustu landsmanna. Þeirra meðferð á almannafé kallar fram kröfu um endurskoðun á stjórnarháttum og framkomu við almenning í landinu áður en lengra er gengið. Ásælni útlendinga í samfelld vatnasvæði laxveiðiáa til eignar, er enn ein stórhættuleg vá, sem að stemma verður stigu við. Í vatnsþyrstum hitnandi heimi framtíðarinnar er það lífsspursmál að hafa óheftan aðgang að vatni. Það fjöregg og gullnámu  verðum við að varðveita eins og sjáaldur augna vorra og öll óskert yfirráð yfir því.   

Ég skora á almenning þessa lands að sjá sóma sinn og hag í því að vaka yfir velferð ALLRA landsmanna, bægja frá öllum sérhagsmuna og óþurftaröflum og standa vörð um frelsi lands og lýðs.

26. 3. 2017

Guðríður B. Helgadóttir  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir