Framkvæmdir á áhorfendasvæði íþróttavallar
Í glampandi síðdegissól, sunnan golu og rúmlega tuttugu stiga hita fengum við að sjá léttspilandi lið Tindastólsstelpnanna gjörsigra Víkinga frá Ólafsvík á sunnudaginn var. Það var ljúft eins og alltaf þegar vel gengur að sitja uppi í stöllunum í vesturstúkunni og horfa á skemmtilegan leik.
Hitt er svo annað mál að í sumar hafa stallarnir ekki einu sinni verið slegnir og eru þeir eins óræktarlegir og sóðalegir og nokkuð getur verið, að ekki sé talað um að þeir eru allir að skríða fram og jafnast niður, enda um það bil hálf öld síðan listamaðurinn Elías B. Halldórsson hannaði þetta áhorfendasvæði og stjórnaði hleðslu sætisraðanna í tilefni fyrsta landsmótsins. Þessi gamla áhorfendastúka gefur íþróttavellinum skemmtilegan og glæsilegan svip og er til vansa ef hún drabbast niður og eyðileggst.
Svo á að fara að setja niður blaðamannahús í efstu röðinni og ekkert nema gott um það að segja, - en væri nú ekki vel viðeigandi að ganga um leið til samstarfs við Fornverkaskólann um það að hlaða stallana upp aftur og gera svæðið eins glæsilegt og það var fyrr á árum, þannig að gott og áreiðanlega fallegt hús stæði í fallegri umgjörð framan í Nöfunum.
Ef til vill finnst mörgum nægilegt að hafa sætin austan vallarins, en margir gestir sem á völlin hafa komið hafa einmitt bent á hversu brekkan að vestanverðu er skemmtileg, og hana megum við ekki eyðileggja, auk þess sem sumir eru svo íhaldssamir að þeir vilja endilega vera þeimmegin.
Björn Björnsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.