Fjögur ár mikilla tíðinda!

Eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að afnema forréttindi æðstu embættismanna ríkisins í eftirlaunamálum. Hin umdeildu sjálfskömmtuðu eftirlaunaréttindi forseta, ráðherra og fleiri  voru skyndilega horfin og núna er eins og þau hafi aldrei verið til. Lítið hefur borið á að núverandi ríkisstjórn hafi verið þakkað þetta verk og þess vegna er rétt að vekja athygli á þessu máli og segja: takk fyrir að afnema misréttið og ranglætið í forréttindum einstakra eftirlaunahópa.

Núna í lok kjörtímabilsins blasir við að á fjórum árum ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefur grettistaki verið lyft í fjölda mála. Ný rammaáætlun er aðeins eitt dæmi af mörgum framfaramálum sem lítur að grundvallarbreytingum í umhverfismálum þjóðarinnar. Annað dæmi um nýja nálgun á hugtakinu þjóðareign á auðlindunum er nýtt veiðigjald á sjávarauðlind þjóðarinnar. Enginn hefði spáð því fyrir fimm árum að slíkar grundvallarbreytingar væru mögulegar. Fyrir fimm árum réð sú hugmyndafræði að útgerðarmenn ættu auðlindina, ef ekki á borði þá  í orði. Þá réð sú hugmyndafræði að sú kynslóð sem nú stýrir Íslandi ætti að virkja allt sem hægt væri að virkja og að stóriðja væri eina framtíð Íslendinga. Fyrir fimm árum virtust óréttlát eftirlaunalög ætla að verða eilíf.

Það eru fleiri grundvallarmál sem þessi ríkisstjórn hefur komið í gegn á ótrúlega skömmum tíma. Engin ríkisstjórn hefur sýnt listamönnum meiri skilning í erfiðu árferði þar sem áróður gegn stuðningi hins opinbera við listir hefur verið mikil og ósanngjörn því það gleymist oft að listin skapar ekki bara gleði heldur líka miklar tekjur. Eins hafa stjórnvöld staðist áróður um að hætta allri þróunaraðstoð sem ber sjálfselsku þeirra sem tala fyrir því ófagurt vitni. Ný hjúskaparlög voru samþykkt með stórauknu frelsi til hjúskapar. Um það mál var raunar lítið deilt en ekki höfðu þó fyrri ríkisstjórnir náð að koma því í gegn.  Íslenskt táknmál var viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. Palestína var viðurkennd sem sjálfstætt ríki.  Árósasamningurinn var fullgiltur. Sjálfstæði fjölmiðla var tryggt með nýjum fjölmiðlalögum. Ný vatnalög hafa verið samþykkt. Ný lög um stjórn fiskveiða og stjórnarskrá með auðlindarákvæði sem tryggir ótvíræða þjóðareign á auðlindum landsins  hefur enn ekki verið samþykkt vegna grímulausra sérhagsmuna gæslu Framsóknar og  Íhalds sem verja meintan einkaeignaréttinn með kjafti og klóm. Þetta skulu menn nú íhuga þegar gengið verður að kjörborðinu í vor hvaða flokkar standa með almannahagsmunum og hverjir með sérhagsmunum.   Öll þessi mál munu halda nafni ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á lofti um ókomna tíð sem fyrstu vinstri ríkisstjórnarinnar í landinu sem starfað hefur í heilt kjörtímabil og lyft grettistaki við fordæmalausar aðstæður og mun hennar verða minnst fyrir  þrautseigju og vinnusemi.

Stjórnvöldum hefur tekist að halda atvinnuleysinu langt undir meðaltali í OECD-löndunum á þessum krepputímum og farið í fjölbreyttar vinnumarkaðsaðgerðir sem gengið hafa út á það að styðja fólk til náms og aftur út á vinnumarkaðinn með aðgerðum eins og Nám er vinnandi vegur og Liðstyrkur. Áfram skal unnið að því að vinna bug á atvinnuleysinu með því að leggja grunn að fjölbreyttum atvinnutækifærum. Um leið hefur skattkerfið verið nýtt til að draga úr áhrifum kreppunnar á þá verst settu og þrepaskipt skattkerfi hefur verið jöfnunartæki til að lækka skatta á þá sem hafa lágar og meðaltekjur. Vinstri stjórn á að beita jöfnunaraðgerðum í þágu velferðar og það höfum við gert þó alltaf megi betur gera og  þær áherslur verða settar í forgang nú þegar loks er að rofa til í efnahagsmálum landsins.

Á næsta kjörtímabili getur hagur þeirra sem verst hafa kjörin vænkast mikið eftir þrengingar í kjölfar hrunsins en það er alls ekki sjálfgefið ef flokkar sem segjast ætla að gera allt fyrir alla en boða stórfelldar skattalækkanir á hátekjufólk komast til valda. Því er aldrei mikilvægara en nú að vinstri félagshyggjuöfl verða áfram í forystu landsins og uppbyggingunni verði haldið áfram í nafni jöfnuðar og réttlætis. Þetta kjörtímabil hefur einkennds af varnarleik en það næsta mun einkennast af lífskjarasókn sem byggð verður á traustum grunni og mun ná til allra landsmanna en ekki bara sumra útvaldra eins og veruleikinn var hér fyrir Hrun.

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir