Feigðarflan með stjórnarskrána

Það er ótrúleg óskammfeilni að halda því fram að stjórnarskráin okkar sé ekki  íslensk, eins og hvað eftir annað heyrist í umræðunni, jafnvel í sölum Alþingis  og það séu því sérstök rök fyrir því að varpa henni fyrir róða. Hún hefur verið grundvöllur stjórnskipunar okkar allan lýðveldistímann frá árinu 1944. Þegar greidd voru um hana atkvæði það ár mætti nær allt kosningabært fólk á kjörstað og 95% þeirra ljáðu henni stuðning með atkvæði sínu. Stjórnarskráin okkar er því alíslensk og hefur reynst okkur vel.

Samstaða um þessa grundvallarskipan stjórnskipunar okkar hefur einkennt  allan lýðveldistímann. Að sönnu hafa verið gerðar ýmsar breytingar á henni  í rás tímans, meðal annars á kosningafyrirkomulagi og kjördæmaskipan.  Leiðarljósið hefur verið að vinna að slíkum breytingum í eins mikilli sátt og frekast hefur verið unnt. Það er skynsamlegt. Um skipan stjórnarskrárinnar þarf að ríkja eins víðtæk eindrægni og mögulegt hefur verið.  Stærstu átakafletirnir í gegn um tíðina hafa verið um  kosningafyrirkomulagið og kjördæmaskipaninna, eins og kunnugt er.

Í anda sátta og eindrægni

Rétt er að hinn ríki vilji til þess að vinna  í þessum sáttaanda hefur í einstökum tilvikum komið í veg fyrir breytingar á stjórnarskránni sem þó mátti ætla að mikil samstaða gæti verið um. Þannig var á árunum fyrir 2007 unnið að breytingum á auðlindakafla stjórnarskrárinnar og miðaði þeirri vinnu vel. Samhliða  var hugað að breytingum á kaflanum um forsetaembættið  og málskotsrétt, í stað þess að forsetinn einn gæti synjað lögum staðfestingar  eins og nú er. Deilur um þetta mál, sem  lituðust af átökum út af fjölmiðlalöggjöfinni, komu hins vegar  í veg fyrir að samkomulag næðist. Þar fór Samfylkingin fremst í flokki og girti því í raun  fyrir nýjan  auðlindakafla stjórnarskrárinnar.

Þetta var mjög miður, því að hægt hefði verið að ná góðri niðurstöðu um þetta mikilvæga ákvæði, sem prýðileg samstaða hefði verið um.

Feigðarflan

En þó svona hafi tekist til í þetta sinn, er það ekki tilefni til þeirra vinnubragða sem nú eru höfð við gerð nýrrar stjórnarskrár. Núna er  málið keyrt áfram, án þess að reynt sé að skapa samstöðu og eindrægni.  Efnisleg vinna Alþingis við málið er ekki hafin, þó þingið sé hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi. Við blasir að þetta mál á að vinna á handahlaupum. Og gáum að því að við erum að tala um heila stjórnarskrá, ekki einstaka kafla hennar. Þetta er því hreint feigðarflan, sem enginn veit á þessari stundu hvar muni enda.

Stjórnarskráin hefur verið þegnunum skjól og vörn

Ekkert kallar á að núverandi stjórnarskrá sé kastað á glæ, eins og nú er verið að gera. Þvert á móti. Hún hefur reynst vel og verið þegnum landsins gott skjól og góð vörn. Skynsamlegast hefði verið að vinna að málinu í anda þeirrar sáttar sem alltaf hefur verið leiðarljósið við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Leggja hefði átt núverandi stjórnarskrá til grundvallar. Eðlilegast hefði síðan verið að leita til þjóðarinnar, stofna til skipulegra umræðna um land allt og fela síðan breiðum hópi sérfræðinga að vinna málið frekar á þeim grundvelli. Síðan hefði sá ferill hafist sem stjórnarskráin mælir um, samþykkt Alþingis og afstaða þjóðarinnar.

Þetta hefði í senn tryggt vönduð vinnubrögð, lýðræðislega aðkomu almennings og sátt um það grundvallarplagg sem stjórnarskráin okkar er svo sannarlega. Í ljósi þessa er óhjákvæmilegt að hafna því í skoðanakönnuninni/þjóðaratkvæðagreiðslunni  sem framundan er á laugardaginn, að tillögur stjórnarlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrár.

Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir