Ekki svo ánægjulegar tölur úr ársreikningi Sveitarfélagsins Skagafjarðar
Í Sjónhorninu miðvikudaginn 22. apríl var hægt að sjá sumarkveðju frá Framsóknarfélagi Skagafjarðar. Í þessari kveðju voru birtar ánægjulegar tölur úr ársreikningi Sveitarfélagsins Skagafjarðar eins og framsókn velur að kalla þær. Þetta er vissulega bætt staða frá árinu 2011 sem ber að fagna, en er töluvert frá því sem meirihlutinn lagði upp með við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 og ef reikningarnir eru skoðaðir nánar er ekki að sjá mikil batamerki á rekstrinum.
Þegar ársreikningur Sveitarfélagsins okkar er skoðaður, kemur í ljós að árangurinn næst ekki með aðhaldssemi. Rekstrargjöld eru um 150 milljónum hærri en áætlað var, þrátt fyrir að ráðist hafi verið í hagræðingaraðgerðir sem ekki var gert ráð fyrir í áætluninni. Þetta gerir að verkum að tekjuaukning sveitarfélagsins fer öll í að greiða þessa kostnaðaraukningu og dugar ekki til því tap af rekstri A hlutans er tæpar 80 milljónir eða 33 milljónum meira en áætlað var. Endurskoðendur KPMG benda einnig á að aðalsjóður sveitarfélagsins, það er rekstur sveitarfélagsins án stofnanna og veitna þurfi til langs tíma að vera í jafnvægi en 139 milljóna tap var á þessum hluta á árinu 2012.
Veltufé frá rekstri er lykiltala í reikningum félaga, þar sem hún segir til um hversu mikið sveitarfélagið getur framkvæmt eða greitt niður af lánum, án þess að taka ný lán. Heildar veltufé frá rekstri í Sveitarfélaginu var rétt um 320 milljónir en þar af voru um 200 milljónir í hafnasjóð og veitunum, það er fjármagn sem ekki má nota annarstaðar en þar sem það verður til. Hjá A hluta Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem á að sjá um nýframkvæmdir og viðhald eigna, var þessi upphæð 121 milljón á árinu 2012, en framkvæmdir á árinu voru áætlaðar 217 milljónir. Við þetta bættist svo 170 milljónir vegna Árskóla.
Það ætti að vera ljóst að 121 milljón dugar ekki til að greiða 387 milljón króna framkvæmdir. Dregið var verulega úr framkvæmdum en framkvæmdir uppá um 80 milljónir urðu ekki að veruleika. Afborganir lána og framkvæmdir sveitarfélagsins voru að mestu fjármagnaðar með nýjum lánum, aðallega skammtímalánum og svo með handbæru fé sem lækkaði um helming milli ára.
Það er í lagi að fagna því að á árinu 2012 voru aðstæður í samfélaginu okkar hagstæðar fyrir sveitarfélagið okkar, en við verðum að hafa í huga að vinnan við að hagræða í rekstri sveitarfélagsins er rétt að byrja og mikið verk er framundan.
Þorsteinn Tómas Broddason
Sveitarstjórnarfulltrúi Samfylkingarinnar í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.