Ef þú ert ekki með... þá ertu á móti!
Ef ég er ekki sammála aðferðafræði í einhverju máli, þá þarf það ekki að vera að ég sé á móti málinu sjálfu. Þó að ég sé ekki tilbúinn að segja já við einhverju, þá þarf það ekki að þýða að ég sé á móti því. Ég hef til dæmis ekkert á móti barneignum þó að ég ætli ekki að eignast fleiri börn.
Stjórnmálaumræðan hér á landi hefur þó verið dálítið á þennan veg og meira að segja í sveitarstjórnarmálum.
Ég hef verið úthrópaður sem andstæðingur íþróttahreyfingarinnar af því að ég taldi ekki rétt að málum staðið við samningagerð við hana.
Ég hef líka fengið að heyra að ég sé andstæðingur skólamála á Sauðárkróki af því að ég taldi að sveitarfélagið hefði ekki efni á þeim framkvæmdum sem ákveðið var að fara í (er reyndar enn á þeirri skoðun).
Ég fæ meira að segja að heyra það að ég sé meðmæltur inngöngu í Evrópusambandið bara af því að ég starfa fyrir ákveðinn stjórnmálaflokk og af því að ég er ekki tilbúinn til að segja nei (ekki tilbúinn til að segja já heldur, þar sem ég veit ekki hvernig samningur við Evrópusambandið myndi líta út og fæ ekki að vita að því er mér sýnist).
Á sveitarstjórnarfundi í Sveitarfélaginu Skagafirði í dag 22. ágúst 2013, lýsti einn sveitarstjórnarmaður úr minnihlutanum yfir áhyggjum sínum af aukinni skuldsetningu sveitarfélagsins vegna framkvæmda sem ekki voru á fjárhagsáætlun. Hann tók sérstaklega fram að hann ætlaði að sitja hjá við atkvæðagreiðslu vegna málsins. Næsti maður í pontu var hinsvegar steinhissa á afstöðu sveitarstjórnarmannsins og spurði hvort hann væri í alvöru á móti framkvæmdinni.
Skilaboðin sem er verið að senda núverandi og framtíðar sveitarstjórnarmönnum eru skýr; „Ef þú vogar þér að efast um ágæti stjórnsýslunnar, þá ertu á móti framkvæmdum og framförum.“ Og hér var sveitarstjórnarmaðurinn ekki einu sinni að efast um framkvæmdina sjálfa, heldur fjármögnunina á henni.
Til að setja þetta í samhengi þá er ágætt að setja upp smá dæmisögu:
Kalli er að grafa skurð og Gunnar kemur að honum. Eftir að hafa horft á vinnubrögðin stingur Gunnar uppá að Kalli fái sér öðruvísi skóflu til að grafa með.
Hvernig ætti Kalli að bregðast við?
A) hlusta ekki á Gunnar og halda bara áfram að grafa.
B) Reiðast Gunnari og segja honum að skipta sér ekki af.
C) Hlusta á Gunnar og annað hvort skipta um skóflu eða færa rök fyrir því að þetta sé besta verkfærið.
D) Spyrja Gunnar af hverju hann sé á móti því að skurðurinn sé grafinn og kalla til vini og ættingja til að berjast fyrir því að skurðurinn sé grafinn svona í ljósi þess að hann sé að mæta mikilli andstöðu í samfélaginu.
Á meðan svarmöguleiki D er stöðugt valinn, er ljóst að áhugi fólks á að taka þátt í því samfélagslega verkefni að reka sveitarfélagið, er að minnka.
Þorsteinn Tómas Broddason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.