Draumalandið

Ég efast ekki um, að hver einasti maður, sem vettlingi getur valdið, hafi á einn eða annan hátt áhuga að vinna eða taka þátt í einhverskonar athöfnum.  Það er okkur Íslendingum eðlislægt að vera starfsöm og taka þátt í að byggja upp gott samfélag.  Það er því ömurlegt að horfa upp á fullfrískt fólk flýja land til að afla sér framfæris, missa heimili sín eða ganga um atvinnulaust.

Ég á mér þann draum að sjá atvinnu og fjölskyldulíf dafna á Íslandi.  Að sjá atvinnutækifæri fyrir alla þá, sem hafa áhuga að vinna eða taka þátt í einhverskonar starfsemi.  Að sjá alla íslenska borgara hafa tækifæri að eignast sitt eigið húsnæði.  Að sjá alla hafa aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu og menntakerfi.  Enginn á að þurfa að líða skort á Íslandi og við eigum að geta séð vel fyrir þeim, sem ganga ekki heilir til skógar.  Mig dreymir um, að þegar ég verð orðinn gamall, þá búi ég í landi þar sem öldruðum verður veitt áhyggjulaust ævikvöld.

Þessi draumur getur hæglega náð fram að ganga ef gæðum landsins er réttlátlega skipt, þar sem enginn er skilinn útundan.  Hægri grænir, flokkur fólksins hefur sett fram metnaðarfulla stefnu sem miðar að því að uppfylla þennan draum, sem við eigum svo mörg sameiginlega. Við erum fámenn þjóð í litlu landi og það er algjör ónauðsyn að hygla einum þjóðfélagshópi á kostnað annars, einum landshluta á kostnað hins eða einu fyrirtæki á kostnað þess næsta.  Við getum öll haft það gott og það eina sem við þurfum að gera er að vera samheldin og yrkja samvinnu.  Það kostar ekki neitt, en uppsker ríkulega.

Ég veit að flest ykkar, sem vitið ekki hvernig hægt er að ná endum saman, vitið ekki hver samastaður ykkar verður á morgun, þið, sem sjáið ekkert nema svartnættið, vonleysi og uppgjöf framundan, hafið auðvitað ríka þrá í hjarta ykkar um betra líf.  Draumur minn er, að ég geti vakið í brjósti ykkar vonina, vonina um betra líf, gleði og bjarta framtíð í stað reiði fortíðarinnar.  Í einlægni langar mig að fá tækifæri með framboði mínu, að vinna að því að Ísland verði fyrirmyndarríki og veiti hverjum og einum tækifæri til að lifa því lífi sem honum hentar.  Vandamálin, sem við þurfum að leysa, verða að vera leyst á pólitískum vettvangi. Með breyttu og jákvæðu hugarfari, samheldni, samvinnu og skynsemi getum við breytt þessu samfélagi, sem hefur fram til þessa einkennst um of af sérhagsmunagæslu á kostnað skattborgaranna og almennings.

Þannig óska ég þess að við öll fáum tækifæri til að láta draumana rætast og það mun takast með því að við kjósum Hægri græna, flokk fólksins til Alþingis í vor.  Leyfum sumrinu að koma með nývöxtinn og hlýjuna. Hægri grænir skreytir sig ekki turtildúfum, frægum eða þekktum andlitum, heldur eingöngu venjulegu íslensku fólki, sem þráir drauminn um betra hlutskipti.  Með atkvæði þínu til Hægri grænna kemur þú þessum draumi skrefinu nær því að verða að veruleika.

Sigurjón Haraldsson viðskiptafræðingur

Frambjóðandi í 1. sæti á lista XG-Hægri grænna í Norð-Vesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir