Dæmum þá af verkum þeirra
Árið 1992 var ég í Grunnskóla Flateyrar undir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Síðan þá hafa landsmenn gengið fimm sinnum að kjörborðinu og hafa fyrrgreindir flokkar haldið völdum mest allan tíman, eða þar til þeir keyrðu landið í þrot árið 2008.
Á fjögra ára fresti lofa flokkarnir öllu fögru á landsbyggðinni, það á að efla atvinnulífið, bæta samgöngur og laga lífsskilyrði landsbyggðarinnar.
Fyrir tuttugu árum var ég í blómlegum grunnskóla á Flateyri ásamt 57 öðrum nemendum. Fjórir af þeim búa nú enn á Flateyri. 53 hafa ákveðið að yfirgefa Flateyri og flytja á brott.
Nemendur Grunnskóla Flateyrar árið 1992. Nú stunda 17 krakkar nám við skólann.
Árið 1992 voru íbúar Flateyrar 400 talsins. Í dag eru íbúar Flateyrar innan við tvöhundruð. - Helmingurinn er farinn á tuttugu árum. Það sem verra er að sú kynnslóð sem ætti að vera að byggja upp framtíð Flateyrar, er sú kynnslóð sem er farin. Flutt frá Flateyri.
Flateyri er ekki einsdæmi
Þessi ömurlega byggðarþróun hefur átt sér stað á vakt Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar, sem hafa þrátt fyrir það lofað að efla landsbyggðina fyrir hverjar kosningar, alls fimm sinnum - Þetta er árangurinn.
Það er kominn tími á vaktaskipti. Við vitum fyrir hvað þessir flokkar standa og hver árangur þeirra hefur verið undanfarin tuttugu ár. - Dæmum þá af verkum þeirra.
Ástæðan fyrir því að ég ákvað að gefa kost á mér í komandi kosningum er vegna þess að ég tel að þeirra óbyggðastefna er fullreynd og kominn tími á að gefa öðrum tækifæri.
Góð byggðastefna þarf ekki að vera flókin. Hún þarf að byggjast á því að gera landsbyggðina sjálfstæðari, bæði fjárhagslega og í ákvörðunartöku. Landsbyggðin verður ekki byggð og plástruð frá Reykjavík. Heldur byggjum við landið upp með því að gefa heimamönnum frelsi og sjálfstæði til að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til staðar.
Landsbyggðina þarf að byggja upp á forsendum heimamanna. Hana þarf að byggja upp innanfrá, ekki með utanaðkomandi skyndilausnum. Það þarf að skapa aðstæður fyrir ungt fólk að snúa heim að námi loknu og skapa sér sín eigin atvinnutækifæri og framtíð. - Það er ekki stjórnvalda að skapa störf, en það er skylda þeirra að skapa aðstæður svo ný störf verði til.
Það þarf enginn að efast um metnað minn fyrir landsbyggðinni og þeir sem þekkja mig og mín verk vita fyrir hvað ég stend. Ég hef verið heill í minni baráttu fyrir eflingu landsbyggðar. - Minn draumur og takmark er að fylla landið aftur af lífi.
Þið vitið fyrir hvað ég stend. - Fyrir hvað stendur þinn frambjóðandi?
Eyþór Jóvinsson, kaupmaður í Vestfirzku verzluninni og oddviti Lýðræðisvaktarinnar í Norðvesturkjördæmi. - XL fyrir Landsbyggðina.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.