Auðugt hugmyndaflug á nýsköpunarþemadegi nemenda Grunnskólans austan Vatna
Um miðjan janúar fóru nemendur Grunnskólans austan Vatna ásamt kennurum sínum í vettvangsferð á Krókinn til að skoða og kynnast starfsemi nýsköpunarfyrirtækja. Fyrirtækin sem voru skoðuð voru; Mjólkursamlag KS, Sjávarleður/Loðskinn, Fab Lab og Flokka. Þessi ferð var liður í því að undirbúa nemendur fyrir nýsköpunarþemað sem var framundan og kynna fyrir þeim hvað fólk heima í héraði er að gera og hvað hægt er að gera í nýsköpunarmálum.
Tvær vikur voru síðan lagðar í nýsköpunarþema þar sem hefðbundinn skóladagur var brotinn upp hjá öllum nemendum skólans. Fimmtudaginn 2. feb. lauk nýsköpunarþemavinnu Grunnskólans austan Vatna með frábærri sýningu á verkum nemenda. Mikill fjöldi fólks kom við í skólanum og skoðaði verk nemenda og óhætt er að segja að hugmyndaflug og útfærslur nemenda á fjölbreyttum hugmyndum kom fólki á óvart.
Í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt eru nemendum kennd vinnubrögð við að þróa hugmynd og/eða lausn á einhverri þörf sem þau hafa fundið alla leið frá hugmynd til markaðssetningar fullskapaðrar vöru / þjónustu.
Grunnskólinn austan Vatna hefur verið í fremstu röð skóla á landsvísu á sviði kennslu í nýsköpun- og frumkvöðlamennt. Síðasta vor var kennslan endurskoðuð og útvíkkuð þannig að í dag taka allir nemendur þátt í henni með einum eða öðrum hætti jafnframt sem námsgreinin hefur verið fléttuð inn í kennslu flestra ef ekki allra námsgreinanna sem kenndar eru.
Þetta starf er í stöðugri þróun og hefur verið virkilega gaman að fylgjast með nemendum þessar tvær vikur, sjá hvaða hugmyndir þeir hafa komið með og hvernig þeir hafa útfært þær þannig að á sýningunni var hægt að sjá margar spennandi fullunnar vörur/þjónustu á plakati og/eða líkani.
Áherslur eru mismunandi eftir aldursstigi nemenda;
1 - 4. bekkur: Hugsunarháttur nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar lagður inn og kenndur smátt og smátt, tekinn í skrefum svo nemendur tileinki sér hugsunina eftir getu, aldri og þroska.
5 - 7. bekkur: Nýsköpunarþemu tekin frá hugmynd til hönnunar. Nemendur sjá möguleikana í því að fá góða hugmynd sem hægt er að nýta í rekstri, einnig að þau þjálfist í því að finna lausnir á minni háttar vandamálum í umhverfi sínu.
8 - 10. bekkur: Haldið er áfram að vinna með nýsköpunarstarfið og byggt ofan á það sem þau hafa lært í námsgreininni á undanförnum árum. Núna hefur áhersla verið lögð á markaðssetningu „Út að austan“, þ.e. hvað geta nemendur komið fram með til að þjónusta ferðamenn enn frekar en gert er, hvaða nýja vöru / þjónustu er hægt að bjóða upp á og hvaða atvinnutækifæri geta fylgt með.
Jón Hilmarsson, skólastjóri Grunnskólans austan Vatna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.