Af hverju býð ég mig fram?
Ástæða þess að ég gef kost á mér í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í NV kjördæmi er ekki sú að ég telji mig vita meira en samferðamenn mínir. Ástæðan er heldur ekki sú að ég hafi svona gaman að karpi og að takast á í orðræðu. Því er þveröfugt farið og einmitt þess vegna ákvað ég að taka þátt. Mig langar að leggja mitt af mörkum til að breyta umhverfi stjórnmála og gera þau mannlegri.
Stjórnmálaumræða hefur á síðustu árum litast af reiði og biturð, skiljanlega. Það eru allir sammála um að það var brotið á þjóðinni. En einhverstaðar las ég að það að vera bitur væri eins og að drekka eitur og halda að annar detti niður dauður. Að mínu mati eru biturð og reiði að eitra stjórnmál nútímans. Við erum of reið til að geta hafið okkur uppúr skotgröfunum og horft á heildarmyndina. Það er ekki bara óæskilegt að fólk hætti að skipta sér af stjórnmálum, það er beinlínis hættulegt. Það er ekkert starf hafið yfir gangrýni, þar eru þingstörf ekki öðruvísi en önnur störf. Það þarf ekki að bera meiri virðingu fyrir þingstörfum en það má ekki heldur bera minni virðingu fyrir þeim. Ef að fólk ber ekki virðingu fyrir þingstörfum er næsta skref að bera ekki virðingu fyrir lögunum sem þar eru sett.
Hvernig samfélagi viljum við skila af okkur til þeirra sem taka við, barnanna okkar? Ég held að margir sem taka þátt í stjórnmálum hafi það að leiðarljósi. Við höfum alveg mikið umburðalyndi og stöndum framar en aðrar þjóðir í mörgu þegar kemur að lýðræði og jafnrétti. Við getum þar verið stolt af hegðun okkar. Þess vegna megum við ekki láta biturð og átök eyðileggja stjórnmálin. Við skiptumst ekki upp í hópa, þjóð á móti þingmönnum eða vinstri á móti hægri. Við hljótum öll að vilja hafa þetta eins og hjá fólki. Það skiptir okkur máli að stjórnmál séu í réttum farvegi, fólk bjóði sig fram og standi saman um brýn hagsmunamál þjóðarinnar.
Með von um að við sameinumst um að líta jákvæðum augum á stjórnmál.
Hlédís Sveinsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.