Aðlögun án umboðs alþingis blasir við
Þann 9. mars síðastliðinn auglýsti embætti ríkisskattstjóra eftir verkefnastjóra til starfa „við aðlögun tölvukerfa embættisins að kröfum Evrópusambandsins auk annarra verkefna“, eins og segir í auglýsingu embættisins. Með þessu er staðfest enn eitt dæmið um að um aðlögunarferli sé að ræða en ekki aðildarviðræður. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir í viðtali við Morgunblaðið í dag „...þetta snýst um að aðlaga tölvukerfi skattyfirvalda ef til aðildar kemur“. Með öðrum orðum á að vinna að aðlöguninni áður en samþykkt er að ganga í ESB.
Það er algjörlega ljóst hvernig aðlögunarferlið virkar og samningamenn starfa. 21. febrúar 2012 sagði aðalsamningamaður Íslands við Morgunblaðið að „ESB hefur sitt verklag“. Þetta verklag er sérstaklega vel útskýrt í bæklingi sem sambandið sjálft hefur gefið út um stækkunarstefnu þess, en þar segir (bls 9):
„Í fyrsta lagi er mikilvægt að skilja að hugtakið „aðildarviðræður“ getur verið misskilið. Aðildarviðræður einblína á þau skilyrði og tímasetningu sem mögulegt aðildarríki innleiðir ESB gerðir – u.þ.b. 100´000 blaðsíður. Þessar gerðir, betur þekktar sem „acquis“, eru ekki umsemjanlegar. Fyrir umsóknarríki snýst þetta fyrst og fremst um að semja um hvernig og hvenær ESB gerðir og starfshættir séu innleiddir.“
http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf
Heimssýn – hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, harmar því að gríðarlegu fé sé sóað í aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að ESB gerðum, án þess að þjóðin hafi fengið að segja sitt í þessu mikilvæga máli. Hvorki íslenskir kjósendur né meirihluti Alþingis hefur veitt slíkar víðtækar heimildir til aðlögunar, enda var því ávallt haldið fram að um könnunarviðræður var verið að ræða.
Reykjavík, 13. mars 2012
Stjórn Heimssýnar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.