Aðhald ber árangur
Ennþá eimir eftir af úreltum stjórnarháttum í stjórnkerfinu þar sem stjórnmálamenn telja sig vera þess umkomna að standa í einhverju leynimakki með fjármuni og hagsmuni sem varða allan almenning. Þegar meirihluti sveitarstjórnar Skagafjarðar ákvað að fara í byggingarframkvæmdir með tilheyrandi skuldsetningu sveitarsjóðs á tímum sem blikur eru á lofti í efnahagslífi landsmanna þá var ákveðið að gera það laumulega. Halda bæði almenningi og fulltrúum Frjálslyndra og óháðra í sveitarstjórn frá því hvernig kaupin gerðust á eyrinni.
Ein helsta forsenda þess að ráðast í verkið var sögð afar hagstæður fjármögnunarsamningur sveitarfélagsins við okkar ágæta sameignarfyrirtæki Kaupfélag Skagfirðinga. Í framhaldi af því að byggingarframkvæmdir hófust skyndilega síðsumars leitaði ég að sjálfsögðu eftir því að fá að sjá umræddan fjármögnunarsamning og sömuleiðis verksamninginn. Svörin sem ég fékk voru á þá leið að samningurinn lægi ljós fyrir, þyrfti einungis að festa hann á blað, von væri á honum á næstu dögum, en aldrei birtist blessaður samningurinn, sem var þó sagður upphaf alls.
Í kjölfarið gerði ég, sem von var, athugasemdir til Innanríkisráðuneytisins og eftir talsverða bið og eftirrekstur hef ég loksins fengið þau skýru svör, í byrjun aðventu, að hvorki sé til staðar skriflegur verkkaupasamningur, né umræddur fjármögnunarsamningur. Þessi vinnubrögð eru vítaverð þar sem framkvæmdin er sú stærsta á vegum sveitarfélagsins á kjörtímabilinu.
Þetta kom mér verulega á óvart því meiri vinna og umstang hefur verið lagt í útleigu á nokkrum félagsheimilum í eigu sveitarfélagsins en þessa gríðarstóru fjárfestingu.
Í máli meirihlutamanna á byggðaráðsfundi 29. nóvember kom í fyrsta sinn fram skýr vilji hjá meirihlutanum til að fara yfir öll gögn málsins. Á fundi fljótlega þar sem spilin verða lögð á borðið og fagna ég þeirri niðurstöðu og þakka meirihlutanum fyrir að sjá loks að sér, en auðvitað á ekki að halda neinum gögnum eða upplýsingum leyndum hvorki fyrir mér, né nokkrum íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Sigurjón Þórðarson
Sveitarstjórnarfulltrúi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.