Vörumiðlun er þriðja stærsta flutningafyrirtækið á landinu -Framúrskarandi fyrirtæki

Vörumiðlun ehf. er þriðja stærsta flutningafyrirtækið á landinu, á eftir Samskip og Eimskip/Flytjanda og var það valið í hóp framúrskarandi fyrirtækja að mati Creditinfo fyrir rekstrarárið 2020. Höfuðstöðvar Vörumiðlunar eru að Eyrarvegi á Sauðárkróki en að auki hefur fyrirtækið starfsstöðvar á Blönduósi, Hvammstanga, Hólmavík, Búðardal, Hellu, Kirkjubæjarklaustri, Reykjanesbæ, Akureyri og Reykjavík.

Að sögn Magnúsar Svavarssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins eru verkefnin jafn fjölbreytt og þau eru mörg en Vörumiðlun ehf. hefur til umráða um sjötíu flutningabifreiðar af ýmsum stærðum og gerðum auk vagna, lyftara og hjálparbúnaðar af ýmsu tagi.

Vörumiðlun varð til við sameiningu Vöruflutninga Magnúsar Svavarssonar og vöruflutningadeildar Kaupfélags Skagfirðinga árið 1996. Markmiðið var að sameina krafta fyrirtækjanna og stuðla að öflugu flutningafyrirtæki auk þess að skapa störf í heimabyggð.

Fyrirtækið hefur stækkað þó nokkuð á undanförnum árum. Árið 2004 voru flutningafyrirtækin Húnaleið á Skagaströnd og Tvisturinn á Blönduósi sameinuð Vörumiðlun. Árið 2006 var flutningadeild KVH á Hvammstanga seld Vörumiðlun og áramótin 2009-2010 kaupir Vörumiðlun flutningadeild KSH á Hólmavík. Vörumiðlun hóf akstur á Hellu og Hvolsvöll árið 2015 og Kirkjubæjarklaustur og Vík í Mýrdal árið 2016. Sama ár gerði Vörumiðlun samning við Smyril Line um akstur vagna á þeirra vegum, sem koma með Norrænu til Seyðisfjarðar, og þeirra skipum til Þorlákshafnar, vikulega allt árið um kring.

Árið 2017 kaupir Vörumiðlun Fitjar-Flutninga ehf. og hóf akstur á Suðurnesjum. Þá sér Vörumiðlun um alla uppskipun og löndun í Sauðárkrókshöfn. Vörumiðlun ehf. er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, framkvæmdastjóri er Magnús E. Svavarsson og stjórnarformaður er Þórólfur Gíslason.

Hver er sérstaða fyrirtækisins, hefur eitthvað breyst með árunum og hvernig hefur hún þróast í gegnum tíðina?
-Við erum með fjölbreyttan tækjaflota sem gerir okkur kleift að leysa flest verkefni sem þarf í vöruflutningum og bregðumst skjótt við. Margt hefur breyst í vöruflutningum frá stofnun Vörumiðlunar. Þar á meðal mun örari ferðir, öðruvísi samsetning á vörum, tilbúin vara, kælivörur og annað. Þess má geta að Skagafjörður er mikið framleiðsluhérað svo sem mjólkurafurðir, kjötafurðir, fiskafurðir, steinull og fleira.

Starfsemin hefur gengið vel og verkefnin hafa verið mörg og fjölbreytt. Við fundum töluvert fyrir breytingum í kjölfar Covid-19. Aukning varð á ýmsum vörum svo sem byggingarefni, húsgögnum og fleira. Einnig kusu margir að versla frekar á netinu og hefur því smápökkum fjölgað mikið. Við gerum okkar besta að vera á tánum varðandi allar þær breytingar sem þurfa til að mæta kröfum neytandans. Við erum með flott starfsfólk sem tæklar vel ný verkefni og áskoranir svo ég er bjartsýnn á framtíðina. Við ætlum að halda áfram að gera það sem við erum best í og að sjálfsögðu grípa ný tækifæri þegar og ef þau bjóðast, segir Magnús.

Fastráðnir starfsmenn fyrirtækisins telja um 85, auk starfsmanna í löndun og ýmis konar íhlaupavinnu. Búseta starfsmanna er dreifð og tengist í flestum tilfellum þeim starfsstöðvum sem fyrirtækið er með.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir félagið að vera á lista fyrir Framúrskarandi fyrirtæki?
-Vörumiðlun hefur verið á lista Framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2012 sem segir okkur að fyrirtækið sé stöðugt og reksturinn í lagi. Við erum virkilega stolt að tilheyra þeim 2% fyrirtækja sem uppfylla kröfur um fyrirmyndar fyrirtæki. Þetta gerist ekki að sjálfu sér enda erum við með frábært fólk í vinnu sem á heiður skilið og þeim ber að þakka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir