Vöðvasullur í sauðfé – Eigendur hvattir til að láta hreinsa hunda sína

Eins og oft áður hafa eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar orðið varir við vöðvasull í sauðfé frá nokkrum bæjum á yfirstandandi sláturtíð og segir Sigríður Björnsdóttir, héraðsdýralæknir NV- umdæmis að vöðvasullur hafi aðeins verið að sýna sig umdæminu.

Ástæða fyrir þessum vágesti getur verið að hundar komist í eða sé gefið hrátt kjöt eða innmat og að mögulega hafi orðið misbrestur á bandormahreinsun þeirra. Á heimasíðu MAST segir að vöðvasullur sé ekki hættulegur fyrir fólk en veldur tjóni vegna skemmda á kjöti og hugsanlega óþægindum fyrir féð.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra beinir þeim tilmælum til aðildarsveitarfélaga að ítreka mikilvægi þess að eigendur láti ormahreinsa hunda sína og að sveitarfélögin auglýsi árlega hundahreinsun í lok sláturtíðar til að koma í veg fyrir útbreiðslu sníkjudýra. Í fundargerð HNV frá 27. október sl. segir að einnig sé mikilvægt að að gæta vel að frágangi sláturúrgangs til að rjúfa smitleiðir.

Þar segir enn fremur að samkvæmt reglugerð um hollustuhætti er eiganda eða umráðamanni skylt að láta ormahreinsa hund sinn árlega. Þar sem búrekstur er skulu hundar ormahreinsaðir að liðinni sláturtíð eða í síðasta lagi í desember ár hvert.

Vöðvasullur í sauðfé eru blöðrur í vöðvum kinda sem innihalda lirfur bandormsins Taenia ovis, sem lifir í hundum og refum og útskýrir MAST á heimasíðu sinni hringrás bandormsins. „Þegar hundur eða refur étur hrátt kjöt sem inniheldur slíkar blöðrur komast lirfurnar í meltingarveg hans þar sem þær verða að fullorðnum ormum. Egg ormanna fara út með saur og geta þaðan borist í sauðfé. Til að stöðva þessa hringrás er mikilvægt að hundaeigendur láti ormahreinsa hunda sína.“

Bent er á þá staðreynd að smitið viðhelst fyrir lífstíð í sýktu fé og því mikilvægt að sjá til þess að hundar komist ekki í eða séu fóðraðir á hráu kjöti. Jafnframt beinir Matvælastofnun þeim tilmælum til refaskyttna að leggja ekki út hræ af kindum fyrir refi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir