Vinnumálastofnun hlýtur Byggðagleraugu SSNV 2021
Á ársþingi SSNV, sem haldið var í fjarfundi 16. apríl, voru Byggðagleraugu SSNV veitt í fyrsta sinn en á heimasíðu SSNV segir að undanfarið hafi mikið verið rætt um störf án staðsetningar og almennt flutning starfa út á land sem m.a. hefur lengi verið baráttumál sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi vestra. Byggðagleraugu SSNV fyrir árið 2021 hlýtur Vinnumálastofnun fyrir árangursríka uppbyggingu starfsstöðva stofnunarinnar á Hvammstanga og Skagaströnd.
Til að vekja athygli á þessu og jafnframt hvetja og þakka þeim sem vel hafa staðið sig hefur stjórn SSNV ákveðið að veita á ársþingi ár hvert, viðurkenninguna Byggðagleraugun, þeirri stofnun eða ráðuneyti sem þykir hafa skarað fram úr í fjölgun starfa eða verkefna á Norðurlandi vestra eða með öðrum hætti stuðlað að uppbyggingu hans.
Á ssnv.is kemur fram að viðurkenningunni sé ætlað að hvetja forsvarsmenn stofnana til að horfa með „byggðagleraugunum“ á verkefni sinna eininga og nýta þau tækifæri sem gefast til flutnings starfa eða verkefna á landsbyggðina í samræmi við áherslur byggðaáætlunar og annarra áherslna ríkisins.
„Byggðagleraugu SSNV fyrir árið 2021 hlýtur Vinnumálastofnun fyrir árangursríka uppbyggingu starfsstöðva stofnunarinnar á Hvammstanga og Skagaströnd. Starfsstöðvarnar báðar hafa mikla þýðingu fyrir samfélögin á Norðurlandi vestra og þykja fyrirmyndardæmi um árangursríkan flutning verkefna á landsbyggðina. Frá opnun þeirra hafa þær eflst verulega og starfa þar nú samtals vel yfir 40 starfsmenn. Slíkur fjöldi starfa hefur mikil áhrif í hagkerfi svæðisins og stuðlar að aukinni byggðafestu og uppbyggingu í landshlutanum,“ segir í frétt samtakanna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.