Vill að Byggðastofnun taki yfir póstmál
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, hefur í hyggju að Byggðastofnun á Sauðárkróki taki yfir póstmál, hlutverk sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur haft með að gera hingað til. Drög að frumvarpi þess eðlis voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í gær. Með því á að leitast við að tryggja jafnan rétt landsmanna til alþjónustu póstsins.
Í frétt á RÚV segir að í frumvarpsdrögunum er Byggðastofnun falið það stjórnsýsluhlutverk að hafa eftirlit með póstþjónustu sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú. „Með því yrði áfram tryggð hagkvæm, skilvirk og áreiðanleg póstþjónusta, um allt land og til og frá landinu,“ segir í tilkynningu á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Með tilfærslunni yrði jafnframt hægt að samhæfa betur byggðasjónarmið og póstmál, en höfuðstöðvar Byggðastofnunar eru á Sauðárkróki.
Stefnt er að því að leggja frumvarpið fram samhliða nýjum lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, en það er hluti af heildaryfirferð á lagaumhverfi stofnunarinnar. Frumvarpið er þó ekki háð þeirri heildaryfirferð, en þar segir að minni umsvif í almennum bréfasendingum gefi tækifæri til að einfalda hlutverk ríkisins þegar kemur að póstþjónustu. Mikilvægt sé þó að gæta að jafnræði landsmanna við slíka einföldun.
Frestur til að senda inn umsögn um frumvarpið er til 4. nóvember.
Heimildir: Rúv.is og Vísir.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.