Vilja takmarka ferðalög á höfuðborgarsvæðið

Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra hefur verið mönnuð í ljósi færslu af hættustigi yfir á neyðarstig á landinu öllu, segir í tilkynningu á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra, en það hefur hún ekki verið síðan neyðarstigi almannavarna var aflétt í vor. Í færslunni segir að aðgerðastjórn hafi þungar áhyggjur af ástandinu og þeirri þróun sem við blasir þó svo að ástandið á Norðurlandi vestra sé ásættanlegt, aðeins þrír í einangrun.

„Í ljósi þessa vill aðgerðastjórn beina þeim tilmælum til íbúa Norðurlands vestra að takmarka eins og kostur er öll ferðalög á höfuðborgarsvæðið og önnur þau svæði sem talin eru útsett fyrir smitum. Jafnframt er rétt að benda á ný tilmæli sóttvarnayfirvalda um að íbúar höfuðborgarsvæðisins takmarki ferðalög sín út fyrir svæðið og haldi sig heima eins og kostur er. Með slíkum aðgerðum er verið að lágmarka möguleikana á því að ný smit berist inn landshlutann,“ segir í færslunni og eru íbúar jafnframt hvattir til að huga vel að persónubundnum sóttvörnum s.s. handþvotti, sprittun, virða eins metra regluna sem og önnur fyrirmæli sem útgefin hafa verið af sóttvarnayfirvöldum.

„Öllum er ljóst að þreyta og leiði vegna þessara aðgerða er mikill hjá íbúum svæðisins sem og landsins alls en sú þróun sem við okkur blasir kallar á að við öll sýnum ábyrgð og skynsemi gagnvart þessu stóra verkefni. Slagorðið „Við erum öll almannavarnir“ hefur sennilega aldrei átt betur við en nú.

Árangurinn er undir okkur sjálfum kominn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir