Vilja Snædísi Karen heim aftur

Mynd tekin af huni.is
Mynd tekin af huni.is
Á fundi Byggðaráðs Húnabyggðar sem haldinn var 7. desember sl. fer Byggðarráð Húnabyggðar á leit við Náttúrufræðistofnun Íslands um að sveitarfélagið fái til baka uppstoppað bjarnardýr sem fellt var 17. júní 2008 og var um árabil til sýnis í stjórnsýsluhúsi Blönduósbæjar, nú Húnabyggð. Húnabyggð er í mikilli uppbyggingu í ferðamálum og ósk þeirra um að fá bjarnardýrið til baka er mikilvægur þáttur í því að efla og setja styrkar stoðir undir ferðamannaiðnaðinn í sveitarfélaginu.
 

Koma bjarndýrsins til Íslands vakti heimsathygli og var mikið fjallað um það í bæði innlendum og erlendum fjölmiðlum á sínum tíma. Það var heimasætan á Hrauni II, Karen Helga Steinsdóttir, sem fyrst sá ísbjörninn þegar heimilishundurinn æddi út í æðarvarpið sem elti bjarndýrið til að skamma það fyrir það að vera á þessum stað.

Í frétt sem birtist á feykir.is segir að Tilraunastöðin á Keldum hafi fengið sýni til að greina og í ljós kom að birnan hafi verið annað hvort 12 eða 13 ára þegar hún var feld. Karl Skírnisson, dýrafræðingur, útbjó þunnsneiðar af tönnum dýrsins til að telja árhringi og ráða í lífssögu hennar út frá línum sem myndast utan á rætur tannanna þegar dýrið eldist. Tvöfaldar vetrarlínur myndast í tannrætur þegar þær leggjast í híði og eignast afkvæmi. Skagabirnan er talin hafa átt afkvæmi þrisvar sinnum og alltaf náð að ala húna sína upp (tekur þrjú ár) þar sem tvær vetrarlínur sáust milli tímgunaráranna. Raunar benda ystu árhringirnir í tönnunum til þess að húnn eða húnar úr síðasta gotinu hafi orðið sjálfstæðir nokkrum mánuðum áður en birnan lagði í sundferðina til Íslands. Birnan var örmagna og að dauða komin þegar hún náði landi við Hraun á Skaga. Hún hafði ekki nærst þann rúma sólarhring sem hún dvaldi á landi, þrátt fyrir gnótt eggja í æðarvarpinu, þar sem hún hélt til, á þessum tíma.

Skömmu eftir að birnan var stoppuð upp var henni fundinn staður í Hafíssetrinu á Blönduósi og fékk þá nafnið Snædís Karen, að hluta til í höfuðið á stúlkunni sem sá hana fyrst eftir að hún kom á land. Efnt var til samkeppni um nafnið á birnunni og það var Ívar Snorri Halldórsson sem fékk verðlaunin fyrir besta nafnið. Nokkru seinna var Snædís Karen flutt í stjórnsýsluhúsið á Hnjúkabyggð 33 á Blönduósi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir