Vilja að RARIK auglýsi störf án staðsetningar
RARIK auglýsti á dögunum eftir verkefnisstjóra stærri framkvæmda en auglýsingin hefur vakið nokkra athygli og umræðu þar sem starfsstöð starfsmannsins var tiltekin í Reykjavík. Það kemur mörgum spánskt fyrir sjónir því öll starfsemi félagsins, og þar með framkvæmdir á vegum RARIK, fer fram á landsbyggðinni. Af þessu tilefni skorar stjórn SSNV á stjórn RARIK að endurskoða fasta staðsetningu starfa í Reykjavík og auglýsa þess í stað störf án staðsetningar.
Í frétt á heimasíðu SSNV segir að stjórn samtakanna hafi tekið málið til umræðu á fundi sínum þann 6. apríl sl. og bókað eftirfarandi:
Nýverið auglýsti RARIK laust til umsóknar starf verkefnisstjóra stærri framkvæmda hjá félaginu. Í auglýsingunni er tiltekið að starfsstöð viðkomandi starfsmanns verði í Reykjavík. Vert er að vekja athygli á að starfsemi RARIK er öll á landsbyggðinni ef frá eru taldar höfuðstöðvar. Allar þær framkvæmdir sem nýr verkefnisstjóri mun hafa umsjón með verða því á landsbyggðinni. Þess vegna vekur það furðu stjórnar SSNV að föst starfsstöð í Reykjavík sé tiltekin í auglýsingunni en starfið ekki auglýst án staðsetningar. Þegar eru til staðar fjölmargar starfsstöðvar félagsins um land allt, m.a. á Blönduósi og Sauðárkróki auk ný aflagðrar starfsstöðvar á Hvammstanga.
Stjórn SSNV skorar á stjórn RARIK að endurskoða fasta staðsetningu starfa í Reykjavík og auglýsa þess í stað störf án staðsetningar. Þannig stuðlar félagið að áframhaldandi uppbyggingu starfsstöðva sinna á landsbyggðinni, þar sem viðskiptavinir þess eru staðsettir.
Jafnframt er í fréttinni minnt á að stjórn SSNV veitti nýverið umsögn um þingsályktunartillögu um flutning höfuðstöðva RARIK á landsbyggðina. Í umsögninni er tekið undir efni þingsályktunartillögunnar og minnt á að í skýrslu Norðvesturnefndarinnar frá árinu 2014 um eflingu byggðaþróunar, fjölgun atvinnutækifæra og auknar fjárfestingar á Norðurlandi vestra var ein tillagnanna flutningur höfuðstöðva RARIK á Sauðárkrók auk eflingar starfsstöðva á Blönduósi og Hvammstanga. Umræða um staðsetningu starfa hjá RARIK er því langt frá því að vera ný af nálinni.
Á fésbókarsíðunni Umræður um byggðaþróun má þó sjá að deilt er um hvort það að auglýsa störf án staðsetningar skili sér í fleiri störfum á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Sem er áhugaverður punktur. Það er þó næsta víst að ólíklegt er að störf sem skilyrt eru við höfuðborgarsvæðið endi á landsbyggðinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.