Vilja að framkvæmdir hefjist sem fyrst við Sundabraut

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, segir það mikilvægt landsbyggðarmál að Sundabrú verði að veruleika og vill það sem forgangsmál í samgöngum og hröðun framkvæmda. Mynd: Skjáskot af vef Alþingis.
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, segir það mikilvægt landsbyggðarmál að Sundabrú verði að veruleika og vill það sem forgangsmál í samgöngum og hröðun framkvæmda. Mynd: Skjáskot af vef Alþingis.

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Norðvesturskjördæmis, flutti mál sitt um Sundabrú sem forgangsmál í samgöngum og hröðun framkvæmda á alþingi í vikunni. Beinir hann því til Alþingis að það álykti að fela innviðaráðherra að beita sér fyrir því að öllum undirbúningi við gerð Sundabrautar, með brú milli Kleppsvíkur og Gufuness, verði hraðað eftir fremsta megni og framkvæmdir hafnar hið fyrsta og eigi síðar en fyrir árslok 2023. Framkvæmdum verði lokið fyrir árslok 2027 eða fyrr. Lagning Sundabrautar verði forgangsverkefni í samgöngubótum í landinu.

„Nauðsynlegt er að tryggja greiðar samgöngur til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta er öllum ljóst. Í þeim tilgangi var ráðist í gerð Hvalfjarðarganga, tvöföldun Reykjanesbrautar og nú síðast fjölgun akreina á Suðurlandsvegi. Næsta skrefið er að leggja Sundabraut, þjóðveg sem þverar nesin frá Kleppsvogi áleiðis upp á Kjalarnes.

Sundabraut hefur verið á teikniborðinu í áratugi og hefur ítrekað verið til umræðu í aðdraganda borgarstjórnarkosninga sem mikilvæg framkvæmd fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið,“ segir í greinargerð tillögunnar.

Hefjum framkvæmdir sem fyrst

„Ákvörðun um það hvort byggja eigi Sundabraut eða Sundagöng verður ekki byggð á félagshagfræðilegri greiningu. Stjórnvöld og stjórnmálamenn þurfa að taka ákvörðun um framhaldið og bera ábyrgð á henni. Niðurstöður starfshópsins eru skýrar og sýna fram á það að Sundabrú er hagkvæmari kostur. Því er ekkert til fyrirstöðu að ákveða endanlega leiðarval og hefja strax undirbúning.

Skipulagslög og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana kveða á um hið lögbundna undirbúningsferli framkvæmda. Mikilvægt er að hefja það sem fyrst og án allra tafa þegar kemur að undirbúningi að lagningu Sundabrautar. Markmið skipulagslaga er að þróun byggðar og landnotkun á landinu verði í samræmi við efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna. Lögin tryggja lýðræðislega aðkomu borgaranna að framkvæmdum,“ segir m.a. í greinargerðinni. Meðflutningsmenn Eyjólfs að tillögunni eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Hér fyrir neðan má sjá umræður um tillöguna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir