Víðsýni er öllum til happs

Sæþór Már, blaðamaður á Feyki
Sæþór Már, blaðamaður á Feyki

Þegar ég var yngri maður en ég er í dag fór ég snemma að hafa áhuga á þjóðmálum, þeim málum sem eru í gangi í þjóðfélaginu og í mínu heimahéraði. Ég myndaði mér skoðanir á ákveðnum hlutum, varði þær síðan og studdi eins og íþróttalið. Ef einhver hafði út á þær skoðanir að setja hafði hann einfaldlega bara rangt fyrir sér og ég rétt. Síðan fór ég í framhaldsskóla, kynntist nýju fólki, prófaði nýja hluti og öðlaðist víðari sýn á hlutina.

Ein mín stærsta og verðmætasta reynsla í lífinu var þegar að ég áttaði mig á því að það væru fleiri hliðar á teningnum en sú sem ég sá. Ég fór að kynna mér röksemdir þeirra sem voru ósammála mér og uppfærði skoðun mína samkvæmt því, annað hvort féll ég meira frá henni eða að henni fyrir vikið, en eitt var víst, skoðunin sem slík styrktist. Grunnurinn varð betri, milliveggirnir og þakið, hún fór að halda vatni. Það kom einnig fyrir að ég áttaði mig á því að skoðunin var einfaldlega á sandi byggð og féll hún því í næsta steypiregni.

Þetta var hugljómun sem ég vona að fleiri hafi orðið fyrir, því ég mæli sterklega með þessari upplifun. Það er erfitt að reyna að bæta samfélagið ef að meginþorri íbúa þess er búinn að ákveða að samfélagið sé ömurlegt og ekkert fær þeim haggað. Ég vona innilega að við viljum öll bæta okkar samfélag og ég held að lykillinn að því sé að auka víðsýni, ekki horfa á vandamál heldur lausnir og ganga í takt því að flestar hindranir eru yfirstíganlegar í krafti fjöldans.

Fjöldinn þarf ekki að vera sammála um allt saman, en svo lengi sem hann er sammála um sett markmið og til í að leita sameiginlegra lausna frá öllum hliðum, þá er vegurinn greiður. 

Sæþór Már Hinriksson


Greinin birtist í 23. tölublaði Feykis 2021

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir