Verðum að tryggja öryggi og velferð okkar fólks, segir forstjóri MAST

Matvælastofnun hefur óskað eftir rannsókn lögreglu vegna atviks þar sem veist var að starfsmanni stofnunarinnar þegar hann var að sinna eftirliti. Á heimasíðu stofnunarinnar kemur fram að um sé að ræða þriðja tilvikið á sl. þremur árum en allt ofbeldi eða hótanir um ofbeldi í garð starfsmanna Matvælastofnunar er kært til lögreglu.

„Við getum ekki tjáð okkur um þetta einstaka mál en þessi ósk um rannsókn lögreglu er skv. okkar verkferlum. Sem betur fer eigum við almennt í mjög góðum samskiptum við okkar eftirlitsþega en það hefur því miður komið upp einstaka tilvik þar sem okkar eftirlitsfólki hefur annað hvort verið hótað eða lagt á það hendur og það er skýlaus regla að allt slíkt verði kært til lögreglu,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, , við fyrirspurn Feykis. Segir hún að ef orðfæri eftirlitsþega er þannig að starfsfólk stofnunarinnar upplifi sig ekki öruggt, þá er eftirlitsþeganum tilkynnt að eftirlit verði stöðvað og þá það komi aftur seinna, þá jafnvel við annan mann.

„En svo ef aðstæður breytast þannig hratt að okkar fólki er beinlínis hótað eða það verði líkamlegt ofbeldi þá verðum við að tryggja öryggi og velferð okkar fólks og því er allt slíkt kært beint til lögreglu. Okkar starfsfólk er að sinna opinberu lögbundnu eftirliti sem gengur almennt vel og sem betur fer er aðför sem þessi sjaldgæf. Ég get ekki tjáð mig um málalyktir þessa eða annarra mála en þau eru í meðferð viðkomandi lögbærs yfirvalds sem er lögreglan. Málmeðferð og ákvarðanir um framhald er í þeirra höndum,“ segir Hrönn Ólína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir