Verðbreytingar hjá Íslandspósti á pökkum innanlands og fjölpósti

Samkvæmt nýrri verðskrá Póstsins má Sögufélag Skagfirðinga búast við því að sendingarkostnaður nýju Byggðasögubókarinnar hækki um allt að 600 krónur, úr 1105 kr. upp í 1690 kr. sé hún send á svæði 4 og vegi a.m.k. 2 kg. Mynd: PF
Samkvæmt nýrri verðskrá Póstsins má Sögufélag Skagfirðinga búast við því að sendingarkostnaður nýju Byggðasögubókarinnar hækki um allt að 600 krónur, úr 1105 kr. upp í 1690 kr. sé hún send á svæði 4 og vegi a.m.k. 2 kg. Mynd: PF

Breytt verðskrá Póstsins tekur gildi 1. nóvember sem taka til sendinga á fjölpósti og sendinga á pökkum 0-10 kg. Ástæða verðbreytinganna eru ný lög sem kveða á um að gjald fyrir sendingar endurspegli raunkostnað en verði ekki jafnað út þvert yfir landið með stuðningi frá ríkinu eins og fyrri lög kváðu á um. Í tilkynningu frá Póstinum kemur fram að með þessum aðgerðum mun verð á sendingum sumstaðar hækka en annarsstaðar munu þau lækka.

Þetta þýðir að flutningur á 0-2 kg pakka innanlands kostar 1090 kr. á svæði 1 eða innan höfuðborgarsvæðisins; kr. 1290 á svæði 2 sem skilgreint er sem kjarnastaðir eins og Blönduós og Sauðárkrókur; 1390 kr. á svæði 3, annað þéttbýli líkt og Hvammstangi og Skagaströnd og svo 1690 kr. á svæði 4 sem flokkast sem dreifbýli. Þar innan fellur m.a. Hofsós og Varmahlíð. Þarna munar 600 krónum á hæsta og lægsta verði eða 35,5%.

Á pökkum sem vega 3-5 kg er flutningskostnaðurinn 1190 kr. á svæði 1, 1490 á svæði 2, 1590 á svæði 3 og 1890 á svæði 4 og munar kr. 700 á hæsta og lægsta verði, eða 37%.

Sami krónumunur er á hæsta og lægsta verði við að flytja 6-10 pakka en í prósentum talið 32%. Á svæði 1 kostar það 1490 kr., á svæði 2 1890 kr., á svæði 3 1990 kr. og kr. 2190 á svæði 4.
Samkvæmt eldri verðskrá kostaði 1105 kr. að senda tveggja kílóa pakka hvert sem er innan lands, 1340 kr. 5 kg pakka og 1737 kr. þurfti að greiða fyrir 10 kg pakka.

Eldri lög – Eitt verð fyrir landið allt
Fyrri lög kváðu á um að sama gjaldskrá væri fyrir póstsendingar, óháð hvar á landinu sendandi eða móttakandi væri staddur. Markmið þeirra laga var að kostnaður við sendingar á pósti væri sá sami um allt land. Útfærsla þessa markmiðs fól í sér að ríkissjóður niðurgreiddi hluta sendingarkostnaðar fyrir viðskiptavini á strjálbýlli svæðum til móts við sendanda.

Nýju lögin - Sendingagjald endurspegli kostnað
Lagabreytingar frá því í sumar kveða á um að gjald fyrir sendingar á 0-10 kg pökkum endurspegli kostnað við flutning og mun ríkið einnig hætta að niðurgreiða kostnað við sendingar.

Gildistaka nýrra laga þýðir að Pósturinn þarf að aðlaga gjaldskrá sína á pökkum innanlands 0-10kg sem sumstaðar verður til þess að verð hækka en annarsstaðar munu þau lækka.

Verðbreytingar á fjölpósti
Einnig tekur gildi ný verðskrá fyrir fjölpóst sem tekur mið af breyttum raunkostnaði við slíkar sendingar. Fjölpóstur hefur í gegnum tíðina fengið að fljóta með öðrum bréfasendingum sem varð til þess að viðbótarkostnaður við þessa dreifingu var óverulegur þar sem bréfin báru mestan hluta kostnaðar. Vegna fækkunar á bréfum hefur Pósturinn nú viðkomu á mun færri stöðum vegna, fjölpóstur kallar hins vegar á viðkomu á hverjum stað og hefur raunkostnaður við dreifingu hans því aukist. Ný verðskrá fyrir fjölpóst tekur mið að þessum breytingum.

Engin breyting á bréfum undir 51 grammi
Póstinum er áfram heimilt að viðhafa sömu verðskrá um allt land á bréfum undir 51 grammi. Engin ákvörðun hefur verið tekin um breytingu á verðskrá að svo stöddu og mun Pósturinn því eftir sem áður sinna póstsendingum til allra landsmanna fyrir hönd ríkisins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir