Veljum að vaxa
Það er gaman að vekja athygli á því sem vel er gert. Það er ekki úr vegi fyrir mig að segja hér örlítið frá þeim verkefnum sem Soroptimistar á Íslandi hafa meðal annars staðið fyrir undanfarna mánuði.
Soroptistar eru samtök kvenna og hluti af alþjóðlegum samtökum, Soroptimist International. Þau hafa það að markmiði að bæta stöðu kvenna, vinna að jafnrétti og mannréttindum og þjóna sínu samfélagi. Nafn samtakanna kemur úr latínu „sorores ad optimum“ – systur sem vinna að því besta, og innan klúbbanna köllum við okkur alltaf systur. Á Íslandi eru 19 klúbbar sem staðsettir eru um allt land og telja samtals 640 systur. Á norðurlandi vestra eru tveir Soroptimistaklúbbar, Skagafjarðar og Við Húnaflóa sem telja 50 systur. Systur í klúbbum landsins hafa undanfarnar vikur unnið hörðum höndum að því að gróðursetja trjáplöntur víða um landið í sínu nærumhverfi í samstarfi við skógræktarfélög.
Sem forseti samtakana (2020-2022) hef ég valið kjörorð „Veljum að vaxa“ og ná þessi orð bæði til mannræktar og umhverfismála innan og utan klúbbanna. Hver klúbbur vinnur sem heild að verkefnum sem efla konur og stúlkur, s.s. sjálfstyrkingu ungra kvenna, menntun kvenna, stuðning við verðandi mæður og mæður með geðheilsuvanda. Samtökin hafa lagt áherslu á aðstoð við konur sem eru þolendur ofbeldis og má þar t.d. nefna að íslenskir Soroptimistar hafa stutt við Kvennaathvarfið, Bjarkahlíð – miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Sömuleiðis er vert að nefna Sigurhæðir, sem er nýopnað húsnæði á Selfossi, með úrræði fyrir konur sem eru þolendur kynbundins ofbeldis. Einnig má nefna ýmis konar aðstoð við konur af erlendum uppruna.
Soroptimistar á Íslandi notuðu Kvenréttindadag Íslands til að gróðursetja tré, ilmreyni, í Meltungu í Kópavogi (lögheimili samtakana), í Fossvogsdal. Tilefnið var 100 ára afmæli samtakana á alþjóðavísu. Athöfnin fór vel fram í góðu veðri. Er það táknrænt og vel við hæfi þar sem Soroptimistahreyfingin hefur látið umhverfismál og sjálfbærni til sín taka í sínu starfi. Mikilvægur þáttur starfseminnar er að vernda umhverfi og náttúru sem hefur orðið viðfangsefni margra klúbba sem hafa tekið að sér gróðurreiti eða farið í hreinsunarferðir í nærumhverfi sínu.
Klúbbar víða um landið hafa verið að gróðursetja í sínu héraði í tilefni af afmælinu. Með gróðursetningarátakinu er ætlunin að vekja athygli á samtökunum hér á landi og þeim fjölmörgu verkefnum sem íslenskir klúbbar vinna að.
Soroptimistasamband Íslands og fjöldi klúbba landsins afhentu styrktarfélaginu Líf við Kvennadeild Landspítalans styrk að upphæð þrjár milljónir til að bæta aðbúnað og þjónustu við legspeglanir. Eins og staðan er núna eru legspeglanir gerðar í svæfingu en með tilkomu nýrra tækja verður hægt að gera þær án svæfinga og þar með minna inngripi fyrir konur. Legspeglanir eru afar mikilvægur partur af þjónustu kvennadeildarinnar því með þeim er meðal annars hægt að skoða inn í legið og greina mögulega sjúkdóma.
Hver sem þú ert og þetta lest, hvað sem þú tekur þér fyrir hendur nú sem endra nær þá hvet ég þig til að „Velja að vaxa“.
Sumarkveðja
Guðrún Lára Magnúsdóttir, forseti Soroptimistasambands Íslands og leikskólastjóri Hvammstanga.
Ég skora á Elísabetu Sif Gísladóttur frá Staðarbakka í Húnaþingi vestra.
Greinin birtist í 26. tölublaði Feykis 2021
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.