Veðurspá Dalbæinga hljómar svipað og sú síðasta
Í fundargerð Veðurklúbbs Dalbæjar þann fjórða mars sl. segir að nánast hefði verið hægt að afrita síðustu fundargerð því veðurspá marsmánaðar hljómar mjög svipað og sú síðasta, þó úrkoma á Dalvík í mars verði ekki eingöngu í föstu formi heldur aðeins blautari en hún var í febrúar. „En áfram verðum við í einhverju mildasta veðrinu hérna á Dallas á meðan við erum farin að vorkenna suður, austur og vesturhlutum landsins fyrir þá veðráttu sem yfir þá gengur,“ segir í fundargerðinni.
„Við fréttum þó af kindum sem höfðu náð að fela sig í Eldborgarhrauni í Kolbeinsstaðahreppi í mest allan vetur sem voru búnar að fá nóg af þessum veðráttum á þeim slóðum og drifu sig bara heim að Ystu Görðum til Andrésar og Þóru um miðjan febrúar til að komast í almennilegt skjól. Og mátti Andrés bóndi víst hafa sig allan við að ná að fylgja þeim eftir heim að húsum síðasta spölinn. Enda skalla á eitthvað það leiðinlegasta veður á þeim slóðum í vetur þá um nóttina. Þarna minntu þessar snjöllu skepnur okkur á að þær vita á sig veðrið oft mun betur en við mannfólkið og ættum við því að vera mun duglegri við að læra af þeim,“ segir í skeyti spámanna.
Eftirfarandi vísur og skýringar um mars og Góu fengu að fljóta með.
Ef hún Góa öll er góð,
öldin má það muna,
þá mun Harpa hennar jóð
herða veðráttuna.
Sighvatur Árnason fyrrverandi alþingismaður, gerði athuganir á því hvernig ýmsir veðráttuspádómar hefðu reynst á árunum 1840-1900 og skrifaði um það í Skírni 1907. Þar segir hann um þennan veðráttuspádóm: „Þau árin, 6 að tölu, á þessu árabili, sem Góan var einmuna góð, stundum greri jörð, þá rættist þetta þannig, að tíðarfarið breyttist alltaf til hins verra á næstu mánuðum (Einmánuði og Hörpu) en þó einkum 3 árin í alvarleg harðindi.“
Góa á til grimmd og blíðu,
gengur í éljapilsi síðu.
Einmánuður andar nepju,
öslar snjó og veður krepju.
Höf:Hallgrímur Jónsson, barnakennari í Reykjavík
Mars hefur hingað til verið
mildur hér norðan á skerið.
Með minnkandi snjóu
og magurri Góu
við njótum hans næsta misserið.
Höf. BJÓR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.