Útskrift fíkniefnaleitarhunda og umsjónarmanna þeirra
Nú á dögunum fór fram útskrift fíkniefnaleitarhunda og þjálfara í Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal þar sem útskrifuð voru fjögur ný teymi hunda og þjálfara ásamt því að fimm önnur teymi luku endurmati. Feykir tók tal á Steinari Gunnarssyni, yfirhundaþjálfara lögreglunnar og spurði hann út í námskeiðið.
„Þetta er námskeið sem er búið að standa frá því í byrjun 2020, þetta eru semsagt fíkniefnaleitarhundar sem koma frá öllum löggæslustofnunum; tolli, lögreglu og fangelsum og nú erum við að útskrifa fjóra nýja og svo voru aðrir fimm í endurmati, sem útskrifuðust 2019. Þetta eru hundar sem eru dreifðir um allt landið og sinna gríðarlega mikilvægu starfi, bæði á landamærum og innan þeirra, finna öll hugsanleg fíkniefni og eru búnir að skila miklum og góðum árangri.“
Kennt hefur verið í lotum og hafa þær flestar farið fram í Skagafirði, en einhverjar í Reykjavík. Á milli lota hafa teymin starfað í sínum embættum í starfsnámi undir handleiðslu leiðbeinanda. Hundarnir koma víðsvegar að, sumir eru fluttir inn og grunnþjálfaðir hér á landi, en aðrir eru fæddir hérna og uppaldir. Þrír af þeim fimm hundum sem luku endurmati eru fæddir í Skagafirði undan Þoku, fjórtán ára farsælum fíkniefnaleitarhundi í eigu Steinars Gunnarssonar og Vinkel, sem er hundur fangelsismálastofnunar.
Prófdómari á námskeiðinu var Nicola Healy en hún kemur frá hundaskóla Metropolitan lögreglunnar í London, sem er skólinn sem Steinar lærði í á sínum tíma.
„Við gerðum formlegt samstarf við þann skóla, þannig að þeir koma að því að dæma hundana hjá okkur, svona úttektir og eins koma þeir í hluta af kennslunni, við skiptumst svolítið á, við förum út og þeir koma hingað. Það er gríðarlega mikilvægt og verðmætt að eiga í þessu samskiptum.“ Segir Steinar að lokum.
Þetta er annað námskeiðið sem er haldið af þessu tagi í Skagafirði sem er í höndum lögreglunnar á Norðurlandi vestra í samvinnu við Menntasetur lögreglunnar ásamt því að lögreglustjórinn í Vestmanneyjum og Fangelsismálastofnum lögðu verkefninu lið. Námskeiðin hafa gefist vel og fyrirhugað er að halda áfram á sömu braut.
„Við munum væntanlega hefja nýja lotu bara núna í haust, þá bara hefst nýtt nám, kemur nýr hópur væntanlega og þá byrjar bara ballið aftur, en við erum alltaf í kringum okkur erlendis eftir hundum og hérna heima, það er erfitt að fá góða hunda.“ Segir Steinar að lokum.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.