Útgáfuhóf bókarinnar Vetrardagur í Glaumbæ sunnudaginn 3. desember
Byggðasafn Skagfirðinga býður öll velkomin í Glaumbæ sunnudaginn 3. desember kl. 16-18. Útgáfuhóf bókarinnar Vetrardagur í Glaumbæ og sýningaropnun samnefndrar sýningar verða í Áshúsi þar sem hægt verður að skoða bókina og virða fyrir sér teikningar og málverk eftir Jérémy Pailler.
Þjóðháttaáhugafólk kemur í heimsókn og verður með jólastarfsdag í gamla bænum. Andrúmsloftið í bænum verður eins og við jólaundirbúning árið 1910. Hópurinn verður með kveðskap og sýnir tóvinnu, kertagerð, laufabrauðsútskurð og fleira. Þá munu konurnar í Pilsaþyt gleðja gesti með nærveru sinni og Stjörnukór Tónadans syngur nokkur jólalög.
Smáframleiðendur í Skagafirði verða með jólamarkað og sannur hátíðarbragur yfir svæðinu. Frír aðgangur er á safnið á meðan á viðburðinum stendur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.