Úlfagil í Laxárdal :: Torskilin bæjarnöfn
Rjetta nafnið er Úfagil, og fyrir því tel jeg þessar heimildir:
Í sölubrjefi frá 1391 stendur: Vfagil (DI. III. 457). Í „Geitaskarðsbrjefi“, árfært 1405: Vuagil, en í kvittunarbrjefinu, sem á við sama kaupbrjef, og ritað er sama ár: Vfagil (DI. IX. 26 og 28). Og árið 1536 finst: Wfagil (DI. IX. 766). Stafirnir v og u eru notaðir jöfnum höndum yfir u eða ú hljóð, og sjezt því að sama nafnið, Úfa-, er í öllum brjefunum.
Úlfa er mjög ungur tilbúningur og þekkist fyrst laust fyrir 1800 (ný Jb. bls. 91 og í manntalsbókum Húnavatnssýslu frá þeim tíma). Um 1700 er rjetta nafnið týnt, því Á. M. segir: „alm. kallað Ooa“ (Jarðabók 1703). Af þessu sjezt, að Úfa hefir afbakast, líklega á 17. öld í Oa.
Á fyrri öldum hefir auðvitað verið framb. úa- og óa- er næsta hljóðlíkt, enda hafa menn hvorugt skilið og nafnið því verið á reiki. Um þetta nafn segir dr. Finnur Jónsson í bæjarnafnaritgerð sinni (Sjá Safn IV. bls. 527): „Úfa- er merkilegt nafn, af úfur = ugla? eða af Úfinn. ?“ Það er satt, að nafnið er merkilegt, en ekki er jeg trúaður á tilgáturnar. Jeg hygg að í nafninu felist forna lýs.orðið úfr = óvinveittur, fjandsamlegur, sbr. þetta í Grímnismálum:
„Úfar ro dísir,
nú knátt Óðinn sea.“
(Sæm. Edda bls. 85.)
Þ. e. fjandsamlegar. Lýs.o. úfr hefir beygst eins og ljúfr-: úfar- úfir- ljúfar- ljúfir- og yngri myndin úfinn- sbr. nú – úfnar- úfnir- hefir upphaflega verið hlutt.orð liðinnar tíðar af tilsvarandi st. sögn (úfa) nú ýfa- ýfði- ýft (veik sögn).
Þessi skýring á nafninu á prýðilega vel við staðhætti. Gilið, sem bærinn stendur við, liggur suðvestur í Langadalsfjöllin, er það alldjúpt gljúfragil og því hrikalegra sem ofar dregur. Gilið hefir þótt ilt yfirferðar og ægilegt álitum, og því verið kallað Úfagil, sem þýðir því nokkuð sama og Illagil. Bærinn svo verið nefndur eftir gilinu. Sú tilgáta, að gilið sje kent við úfur = fjallauglur (strix leubo). Kemur að því leyti í bága við nafnið, að þá, hefði það annaðhvort orðið að heita úfu- eða úfnagil, beygist eins og dúfa- dúfu- dúfna.
Auk þess mun það uglunafn vera alóþekt hjer á landi (Árb. Fornleifafjel. 1923). Nafnið hygg jeg því vera eitt þeirra fágætu merkisnafna, sem geymt hefir gleymt fornyrði. Og þetta, að lýsingarorðið úfur hefir „numið hjer land“ í bæjarnafninu, bendir heldur á, að Grímnismál sjeu ort hjer á Íslandi en hið gagnstæða.
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Áður birst í 28. tbl. Feykis 2021
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.