Tíu eru nú í einangrun á Norðurlandi vestra vegna Covid-19

Tafla af Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Tafla af Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra nú fyrir stundu segir að því miður sé Covid-19 komið aftur á stjá og það af nokkrum krafti. „Smit eru að greinast í flest öllum umdæmum landsins og þrátt fyrir að ekki séu smit í öllum póstnúmerum okkar hér á Norðurlandi vestra þá mega íbúar umdæmisins ekki gleyma sér á verðinum,“ segir í tilkynningunni en í meðfylgjandi töflu má sjá að smit eru í fimm póstnúmerum af 14 á Norðurlandi vestra.

Fram kom á mbl.is í dag að sex af 15 skipverjum á Málmey SK-1 greindust með veiruna en togaranum var sigld til hafnar á Sauðárkróki á föstudag eftir að grunur um smit vaknaði. Allir skipverjar fóru í sýnatöku þegar komið var í höfn og niðurstaðan var þessi og eru skipverjar því annað hvort í einangrun eða sóttkví.

Samkvæmt töflunni eru því tíu í einangrun á Norðurlandi vestra og 32 í sóttkví. Rétt er að minna á að skylt er að bera grímu þegar ekki er unnt að virða eins meters nálægðarreglu.

Meðfylgjandi er tafla yfir stöðuna í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, eins og hún er núna í dag, 7. nóvember 2021.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir