Tindastóll í 5. sæti fyrir níundu umferð í Subway-deildinni

Drungilas átti góðan leik og skoraði 22 stig í leiknum. MYND TEKIN AF FACEBOOK-SÍÐU KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR TINDASTÓLS.
Drungilas átti góðan leik og skoraði 22 stig í leiknum. MYND TEKIN AF FACEBOOK-SÍÐU KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR TINDASTÓLS.
Það voru gleðitíðindi í Síkinu síðasta fimmtudag þegar meistaraflokkur karla vann Hauka 78-68. Síðustu tveir leikir fram að þessum leik voru því miður ekki búnir að vera liðinu til góða enda meiðsli að hrjá liðið og því tap á móti sterku liði Njarðvíkur og Stjörnunnar staðreynd.
 
En mikið gekk á í leiknum og eins og flestir vita þá hneig David Okeke niður eftir tæplega 18 mínútna leik. Var hann fluttur fljótlega á HSN á Króknum þar sem kom í ljós að hann fékk tvö væg hjartastopp og var því fluttur til Akureyrar og þaðan á Landsspítalann til aðhlynningar. Það voru góð viðbrögð hjá sjálfboðaliðum og starfsmönnum Tindastóls að þakka að málið var litið alvarlegri augum en David vildi hafa uppi en maðurinn er með gangráð og vonandi verður hann kominn aftur á parketið sem fyrst. Þarna er á ferðinni svakalega flottur leikmaður en þegar David fer á bekkinn er hann búinn að eiga frábæran leik og skora 14 stig.
 
Stigahæsti leikmaður Tindastóls í leiknum var að þessu sinni Drungilas en hann var með 22 stig, Lawson var með 18 stig, Tóti Túrbó var með 16 stig, Ragnar með 11 stig, Pétur með sex stig og Orri með fimm stig. Skilaði sigurinn Tindastól fimmta sætinu í deildinni en ekki meira né minna en sjö lið eru með fimm sigra og þrjú töp eftir 8. umferð og deildin svakalega jöfn og skemmtileg.
 
Næsti leikur hjá strákunum er fimmtudaginn 30. nóvember kl. 19:15 á móti Þór Þorlákshöfn í Þorlákshöfn en þeir sitja núna í fjórða sæti og verður gaman að fylgjast með leiknum. Nú er bara spurning hvort nýi kappinn verði kominn með leikheimild til að spila? 
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir