Þorláksmessa
Í dag er Þorláksmessa og margir sem hafa það fyrir sið að skreyta jólatréð og gera síðustu jólagjafainnkaup sín á þessum degi og leggja lokahönd á undirbúning jólanna. En vitum við af hverju þessi dagur heitir Þorláksmessa? Kaþólskur siður var afnuminn á Íslandi árið 1550 en þó er enn að vissu leyti haldið upp á messu íslenska dýrlingsins Þorláks helga á messudegi hans þann 23. desember ár hvert, en þetta vissu nú allir....
Hefð er fyrir því hjá ansi mörgum að gæða sér á kæstri skötu á Þorláksmessu. En þessi siður er í raun leifar frá kaþólskum tíma þar sem fastað var fram að jólum og ekki borðað kjöt. Þess vegna var borðaður fiskur, helst lélegur daginn fyrir kjötveisluna miklu sem hófst þegar jólahátíðin gekk loks í garð. Siðurinn að borða skötu á Þorláksmessu barst til höfuðstaðarins frá Vestfjörðum um miðja 20. öld en það var aðalega á Vestfjörðum og við Breiðafjörð sem skatan veiddist. Hún þótti reyndar ekki mikið lostæti en þar sem haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu var skötuát í hugum margra nátengd þessum degi og fór mönnum að finnast það nauðsynlegt að fá skötu daginn fyrir jól. Þetta er ekki fróðleikur sem blaðamaður liggur á heldur er hann fenginn að láni af vef Þjóðminjasafnsins.
Gleðilega Þorláksmessu gott fólk og verði ykkur skatan að góðu, þið sem leggið hana ykkur til munns. Við hin borðum líka eitthvað gott í tilefni dagsins, munum svo að njóta samverunnar með fólkinu okkar eftir bestu getu, halda í hefðirnar eða búa til nýjar og ekkert stress, það er ekki til neins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.