Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sigraði í prófkjöri Norðvesturskjördæmi
Prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi lauk í gær. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sigraði með 1.347 atkvæði þegar öll atkvæði höfðu verið talin. Alls greiddu 2.289 atkvæði.
Gild atkvæði voru 2.232 og skiptast þannig:
Í 1. sæti með 1.347 atkvæði í 1 sæti er Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
Í 2. sæti með 1.061 atkvæði í 1-2 sæti er Haraldur Benediktsson
Í 3. sæti með 1.190 atkvæði í 1-3 sæti er Teitur Björn Einarsson
Í 4. sæti með 879 atkvæði í 1-4 sæti er Sigríður Elín Sigurðardóttir
Nokkrar sviptingar voru hjá þeim er sóttust eftir þremur efstu sætunum því eftir að talin höfðu verið 798 atkvæði var Þórdís Kolbrún efst en Teitur Björn í öðru sæti og Haraldur í því þriðja.
Þegar aðrar tölur birtust, eftir að talin höfðu verið 998 atkvæði, var Haraldur kominn upp fyrir Teit í annað sætið og Sigríður Elín Sigurðardóttir hélt sig enn í því fjórða.
Nú er bara spurningin hvort Haraldur taki annað sætið eða standi við stóru orðin og stigi til hliðar en hann lét hafa eftir sér að svo kynni að fara fengi hann ekki kosningu í leiðtogasætið áfram. Verði það niðurstaðan færist Teitur í það sæti og Sigríður Elín í þriðja.
Ekki er enn búið að kunngjöra hvernig raðaðist á listann utan þessi fjögur sem að ofan eru talin og því ekki víst hver fengi fjórða sætið ef Haraldur ákveður að kveðja listann.
Hægt er að sjá atkvæðadreifingu með því að smella HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.