Þolinmæðin kemur einhverstaðar á leiðinni

Úrsúla og dóttirin Hera.
Úrsúla og dóttirin Hera.

Úrsúla Ósk Lindudóttir á heima á Skálá í Sléttuhlíð ásamt kærastanum sínum Arnari Bjarka og átta mánaða dóttur þeirra Heru. Þau eru með mjólkurbú, naut, hesta, kindur og eina geit og kiðlingana hennar. Arnar á labradorrakka sem heitir Simbi og Úrsúla á Ástralska tík sem heitir Apríl.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Ég byrjaði auðvitað að læra í grunnskóla, reyndi svo einhvern tíman stuttu eftir fermingu að prjóna mína fyrstu peysu sem endaði með mikilli upprakningu þannig ég gafst upp og hætti. Það er ekki nema u.þ.b. ár sem ég lét á þetta reyna aftur og fékk þá algjört æði. Svo fór ég á saumanámskeið hjá Verðandi endurnýtingarmiðstöð á Hofsósi og saumaði snyrtibuddur.

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Ég er ekki komin lengra en prjónið og ég hef mjög gaman að því að prjóna þessar týpisku lokuðu peysur með munstri. Er hrifnari af því að prjóna upp heldur en niður.

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Ég er búin að vera í smá pásu núna eftir að ég prjónaði yfir mig eftir meðgönguna og fæðingarorlof. Það gefst ekkert svakalega mikill tími til þess að taka í prjónana eins og er en ég stefni á að taka upp prjónana aftur.

Hvar fékkstu hugmyndina? Það er margt fólk í kringum mig sem prjónar og núna finnst mér eins og það hafi byrjað einhver prjónabylgja og allir farnir að prjóna og ég svo sannarlega tók þátt í því, enda ótrúlega skemmtilegt og gaman að geta átt svona eftir sig og montað sig aðeins.

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Peysan Hófadynur frá lopidesign sem ég gerði á Arnar. Ég ætlaði ekki að tíma að gefa honum peysuna fyrst en ég hef notað hana mest megnis. Ætli ég endi ekki á því að prjóna aðra á sjálfa mig.

Eitthvað sem þú vilt bæta við? Æfingin skapar meistarann og þolinmæðin kemur einhvers staðar á leiðinni.

 

Áður birst í tbl. 31 Feykis 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir