Það stefnir í fótbolta um helgina

Veturinn hefur strítt knattspyrnufólki að undanförnu. MYND: SIGURÐUR INGI PÁLSSON
Veturinn hefur strítt knattspyrnufólki að undanförnu. MYND: SIGURÐUR INGI PÁLSSON

Það er bikarhelgi í körfunni og Tindastólsmenn hvíla því. Það stefnir aftur á móti í mikla fótboltahelgi því á morgun, laugardag, eiga Stólastúlkur heimaleik gegn liði Stjörnunnar í Lengjubikarnum og hefst leikurinn kl. 14:00. Strax í kjölfarið, eða kl. 16:00, á svo sameinaður 3. flokkur Tindastóls / Hvatar / Kormáks leik gegn Aftureldingu.

Samkvæmt heimildum Feykis er 3. flokkurinn sameinaði skipaður bráðefnilegum stúlkum sem skelltu á dögunum sameinuðu Suðurnesjaliði RKVN þar sem Kormáks-stúlkan Júlía Jara Ólafsdóttir gerði bæði mörk liðsins í 1-2 sigri í Nettóhöllinni.

Meistaraflokkur kvenna spilar síðasta leik sinn í Lengjubikarnum þar sem liðið hefur verið í riðli með liðum úr efstu deild. Liðið hefur spilað fjóra leiki, tapað þremur en gerði jafntefli hér heima gegn KR. Nú eru það Stjörnustelpur sem mæta á Krókinn en þær hafa unnið þrjá leiki og tapað einum og verða vafalítið erfiður andstæðingur. Tindastólsliðið ætti að öllum líkindum að geta teflt fram sínu sterkasta liði.

Veðurspáin fyrir morgundagin var góð en hefur nú heldur versnað og lítið á veðrið að treysta þennan rússíbanavetur. Fram eftir degi er þó spáð stilltu veðri en talsverðri slyddu og því kannski helst spurning hvort fært verður yfir heiðar fyrir gestina.

Karlarnir keppa líka en að heiman

Lið Kormáks/Hvatar spilar í Lengjubikarnum á laugardag þegar þeir heimsækja ÍH í Skessuna í Hafnarfirði. Liðið hefur spilað tvo leiki og tapað báðum og síðan náðu Húnvetningar ekki í lið í leik gegn Elliða og var Árbæingum dæmdur sigur í þeim leik. Á sunnudag á karlalið Tindastóls að mæta liði Samherja í Boganum á Akureyri kl. 16:30. Lið Tindastóls er efst í sínum riðli án þess þó að hafa spilað leik en Stólunum var dæmdur sigur í leik gegn KB sem létu vita of seint að þeir kæmust ekki til leiks.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir