„Það er margra ára reynsla að dvelja vikulangt á hálendisvaktinni“
Vikuna 1.-8. ágúst var nóg um að snúast hjá björgunarsveitinni Skagfirðingasveit á Sauðárkróki en meðlimir hennar tóku að sér hálendisgæslu á hálendisvakt í Landmannalaugum á Fjallabaki. Hálendisvakt Landsbjargar er verkefni sem byrjaði fyrir allmörgum árum til að stytta viðbragðstíma björgunarsveita yfir sumarið við verkefnum á hálendinu.
Hálendisgæslan fer fram á fjórum stöðum á hálendinu; Fjallabaki við Landmannalaugar þar sem Skagfirðingasveit var í sumar, norðan Vatnajökuls, Nýja-dal á Sprengisandi og svo er ný til komin viðbragðsvakt í Skaftafelli. Björgunarsveitir af öllu landinu geta skráð sig á vaktir á þessum stöðum sem eru frá sunnudegi til sunnudags. Hálendisgæslan er starfandi yfir sumarið, frá miðjum júní og fram í lok ágúst.
Skagfirðingasveit hefur farið einu sinni á sumri síðan 2013 á hálendisvakt fyrir utan eitt sumar. Feykir hafði samband við Hafdísi Einarsdóttur, formann Skagfirðingasveitar, á meðan sveitin sinnti gæslu fyrr á mánuðinum og forvitnaðist um verkefnið.
„Við erum að sinna allskyns verkefnum. Allt frá því að skoða augu og setja plástur og allt upp í fjallaverkefni, þyrluútköll og allt sem getur gerst. Fyrir sveit eins og okkar, sem fáum ekki nema svona átta til tólf útköll á ári og sum hver afturkölluð mjög fljótlega, að þá er þetta bara veisla, svona uppskeruhátíð í raun og veru. Það er marga ára reynsla að dvelja vikulangt á hálendisvaktinni.“
„Þetta er í rauninni frí, skástrik, að sinna verkefnum. Eins og t.d. núna eru báðir bílarnir á ferðinni og okkar fólk er bara að skoða landslagið í kring og eru síðan til taks ef eitthvað kemur upp á. Reynslan að keyra á hálendinu, keyra í þungum snjó, afla sér upplýsinga um færð vega, þetta er bara ómetanleg reynsla fyrir okkur.“
Í haust stefnir Skagfirðingasveit á það að vera með dagskrá fyrir nýliða sem stendur frá september til áramóta. Nýliðar fá kynningu á starfi sveitarinnar, taka nokkur vel valin námskeið, kynnast félögum sveitarinnar og að lokum samþykktir á útkallslista.
„Björgunarsveitarstarf er fyrir alla, það er alltaf hægt að leggja lið, það er hægt að mæta í hús og smyrja samlokur fyrir liðið eða koma og vera í tölvu vinnunni. Við erum á mikilli uppleið [Skagfirðingasveit], það er búin að vera mikil virkni síðasta ár og ég sé fram á enn bjartari tíma,“ sagði Hafdís Einarsdóttir, formaður sveitarinnar.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.