Telur stærra sveitarfélag verða öflugra að öllu leyti - Sigurlaug Gísladóttir Blönduósi
Sigurlaug Gísladóttir, sem fædd er og uppalin í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, býr nú á Blönduósi og rekur verslunina Húnabúð þar í bæ, sem er hvoru tveggja í senn, kaffihús með blóm og gjafavörur.
Hvernig líst þér á að sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu verði sameinuð?
-Mér líst vel á að sameina Austur Húnavatnssýslu
Hvað telur þú jákvætt við þær?
-Held að flest sé jákvætt.
Hvað neikvætt?
-Neikvætt væri ef það yrðu margir ósáttir ef þetta yrði samþykkt. Því óánægja getur skemmt mikið fyrir verkum framundan í stærra sveitarfélagi.
Hvernig telur þú að sameining eigi eftir að breyta þinni afkomu ef nokkuð?
-Sameining breytir litlu fyrir mig persónulega.
Hefur þú fylgst með umræðum og skrifum á heimasíðu sameiningarnefndar Húnvetningur.is?
-Lítið fylgst með umræðum á netinu, er meira fyrir að tala beint við fólk.
Er eitthvað sem þér finnst tortryggilegt sem sett er fram um hugsanlega sameiningu?
-Nei, get ekki séð það.
Er eitthvað þar sem þú ert virkilega sammála?
-Ekkert sérstakt. Ég tel bara að stærra sveitarfélag verði öflugra að öllu leyti.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Öll sveitarfélög þurfa að fara hysja upp um sig buxurnar í málefnum fatlaðs fólks, sérstaklega ef litið er til NPA þjónustunnar og dóms sem féll nýlega á Mosfellsbæ, og verður fordæmisgefandi, og ég tel engar líkur á að það sveitarfélag vinni málið á seinni dómsstigum, því lögin eru skýr en ekki hefur verið farið eftir þeim hingað til. Sveitarfélögin sömdu hroðalega af sér þegar sá málaflokkur færðist yfir á sveitarfélögin og eru að súpa seyðið af því síðan. Létu plata sig út í þetta sem kallast SIS mat á fatlanir fólks og fá greitt eftir því sem hefði aldrei átt að verða til. Fólk á ekki að setja í verðflokka eins og hverja aðra gripi heldur skal hver einstaklingur fá þá þjónustu sem hann þarf miðað við heilsu, óháð hvað Excelskjölin segja að þurfi. Og það segja lögin alveg skýrt, hvað sem tekjum sveitarfélaga frá ríki líður.
Í tilefni íbúakosninganna í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem fjögur sveitarfélög bíða örlaga sinna um sameiningu eður ei, sendi Feykir, af handahófi, fjórum einstaklingum úr sitthverju sveitarfélagi héraðsins, spurningar til að kanna hug þeirra til verkefnisins og birtist í 20. tbl. Feykis 2021, sjá HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.