Sveitarstjórn Skagastrandar hvetur Svandísi til að hverfa frá 1.500 tonna niðurskurði strandveiðikvóta

Frá Skagaströnd. Mynd: ÓAB.
Frá Skagaströnd. Mynd: ÓAB.

Á fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagastrandar í gær var tekin fyrir ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, frá 21. desember þar sem skerða á þorskveiðiheimildir sem ætlaðar eru til strandveiða næsta sumar og almenns byggðakvóta. Var þessu mótmælt í bókun sveitarstjórnarinnar og á það bent að umtalsverð nýliðun hafi átt sér stað innan smábátaútgerðar á Skagaströnd á undanförnum árum sem tengja má beint við strandveiðikerfið.

Í frétt á heimasíðu Félags smábátaeigenda, smabatar.is, má sjá að breytt reglugerð geri ráð fyrir 8.500 tonnum til strandveiða, sem er 1.500 tonnum minna en áður hafði verið ákveðið, eða 10.000 tonn. Svandís lét hafa það eftir sér í frétt á Mbl.is að hún teldi ekki ástæðu til að verða við kröfum Landssambands smábátaeigenda um að auka við aflaheimildirnar þar sem slíkt myndi ganga gegn vísindalegri ráðgjöf um veiðar, en veiðiráðgjöf fyrir þorsk var lækkað fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.

Eftirfarandi bókun lagði oddviti sveitarstjórnar Skagastrandar fram á fundi í gær sem sveitarstjórn tók undir samhljóða:
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar hvetur hæstvirtan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að hverfa frá 1.500 tonna niðurskurði aflaheimilda til strandveiða árið 2022. Sveitarstjórn telur að embættisverk ráðherra ættu að miða að því að tryggja strandveiðiflotanum nægar heimildir til þess að stunda veiðar 48 daga á ári enda myndi slík styrkja sjávarbyggðir um land allt. Á síðasta fiskveiðiári lönduðu 34 bátar strandveiðiafla á Skagaströnd sem nam um 613 tonnum eða um 5% strandveiðiafla á landinu öllu. Umtalsverð nýliðun hefur átt sér stað innan smábátaútgerðar á Skagaströnd á undanförnum árum sem tengja má beint við strandveiðikerfið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir