Styrktarsíða Freyju Heimisdóttur

Fjölskylda Freyju Heimisdóttur. Mynd af FB.
Fjölskylda Freyju Heimisdóttur. Mynd af FB.

Stofnuð hefur verið styrktarsíða fyrir Freyju Heimisdóttur, litla stúlku frá Blönduósi sem fæddist 13. maí síðastliðinn. Foreldrar Freyju eru þau Heimir Hrafn Garðarsson og Marit van Schravendijk og systkini Ýmir níu ára og Embla þriggja ára. Það er Húni.is sem vekur athygli á síðunni, sem hægt er að finna á Facebook, og hefur stuðningsfólk stofnað söfnunarreikning, 0307-22-691, kt. 041083-5819, þeim til handa.

„Meðgangan og fæðingin höfðu gengið vel en Freyja var frekar smá þegar hún fæddist, eða um 2800 gr. Allt virtist þó vera í lagi og hún var komin heim með foreldrum sínum 5 klst. eftir fæðingu. Fljótlega eftir heimkomuna varð litla hnátan slöpp og það var ákveðið að fara með hana á Landspítalann til þess að láta líta á hana. Við tóku tvær vikur á vökudeildinni þar sem gerðar voru ýmsar rannsóknir og þegar Freyja var þriggja vikna greindist hún með alvarlegan hvatbera efnaskiptasjúkdóm.

Líkami Freyju framleiðir ekki nógu mikla orku fyrir líffærin og þar sem lifrin og heilinn þurfa mikla orku verða þessi líffæri fyrir alvarlegum afleiðingum af orkuskerðingunni. Lítið er vitað um þennan sjúkdóm þar sem einungis þekkjast innan við 50 tilfelli í heiminum og genabreytingin hennar Freyju hefur aldrei sést áður.

Vegna sjúkdóms þolir Freyja litla illa hita og hún þarf að leggjast inn á sjúkrahús þegar hún veikist. Veikindi Freyju kölluðu á breytingar hjá fjölskyldunni. Þau þurftu að vera nær Landspítalanum og þeirri sérþjónustu sem Freyja mun þurfa. Það var því var ákveðið að flytja frá góða samfélaginu á Blönduósi til Reykjavíkur,“ segir á styrktarsíðu Freyju Heimisdóttur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir