Stormur eða rok í nótt og líkur á foktjóni
Suðaustan illviðri gengur yfir landið í kvöld og í nótt og versnar veðrið fyrst sunnanlands, eftir því sem fram kemur á heimasíðu Veðurstofu Íslands. Suðvestan óveður skellur síðan á Suðurlandi í nótt og á Vesturlandi fyrripartinn á morgun. Vegna þessa hefur verið gefin út gul viðvörun sem tekur gildi seinni partinn í dag sem breytist svo fljótlega í appelsínugula viðvörun fyrir landið allt áður en dagur er allur.
Suðaustan og austan stormur eða rok, 20-28 m/s, með snjókomu eða slyddu er spáð fyrir Norðurland vestra og segir á vedur.is að útlit sé fyrir samgöngutruflanir og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi. Líkur á foktjóni og er fólki ráðlagt að ganga frá lausum munum og verktökum jafnframt bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.
Fljótlega upp úr miðnætti dettur hver veðurviðvörunin úr gildi, fyrst á Suðurlandi og má búast við því að snemma í fyrra málið verði ástandið komið í eðlilegt horf á Norðurlandi vestra og allt austur að Glettingi.
Gul viðvörun tekur svo við á miðhálendinu, Suðurlandi, Höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóa meðan suðvestan stormur eða rok gengur yfir með úrkomu í formi regns, slyddu og síðar élja.
Veðurspá fyrir Strandir og Norðurland vestra
Fremur hæg suðlæg átt og léttir til í nótt, frost 0 til 7 stig. Suðaustan 10-18 kringum hádegi á morgun, og hvessir seinnipartinn. Suðaustan og austan 20-28 seint annað kvöld með snjókomu og hita um frostmark.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Breytileg átt 5-13 m/s framan af degi og él á víð og dreif, en gengur í norðaustan storm á Vestfjörðum með snjókomu kringum hádegi. Norðaustan 15-23 um kvöldið og snjókoma á N-verðu landinu, en heldur hægari og þurrt syðra. Frost 1 til 7 stig.
Á fimmtudag:
Norðan 10-18 og él, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 8 stig. Lægir seinnipartinn, styttir upp og herðir á frosti.
Á föstudag:
Gengur í suðaustan og sunnan hvassviðri eða storm með snjókomu, en síðar rigningu eða slyddu á láglendi. Hægari vindur og úrkomulítið á N- og A-landi fram eftir degi. Hlýnandi veður.
Á laugardag:
Suðvestan 5-13 m/s og él, en skýjað með köflum um landið NA-vert. Frost 0 til 6 stig.
Á sunnudag:
Fremur hæg suðlæg átt og él sunnan og vestantil en snýst í vaxandi norðaustanátt síðdegis með snjókomu um landið austanvert. Frost 0 til 6 stig.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.