Stórátak í riðuarfgerðagreiningum

Mikil gerjun hefur átt sér stað á síðustu misserum í málum tengdum rannsóknum á riðuveiki, segir í grein Eyþórs Einarssonar á heimasíðu Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. RML hefur auk Keldna, Karólínu í Hvammshlíð og hópi áhugasamra erlendra vísindamanna, komið að verkefnum sem m.a. miða að því að leita í stofninum að verndandi arfgerðum. Öll sú vinna miðar að því að hafa fleiri verkfæri í baráttunni við riðuveiki með það að markmiði að útrýma henni.

Nýverið hlaut RML styrk úr Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar til þess að standa fyrir stórátaki í arfgerðagreiningum en um svokallaðar riðuarfgerðargreiningar er að ræða þar sem arfgerð príonpróteinsins er skoðuð í kindum. Fagráð í sauðfjárrækt hvetur mjög til þess að rannsóknir tengdar riðuveiki séu efldar og hvernig rækta megi stofna/hjarðir með þolnari arfgerð gagnvart henni. Styrkurinn mun að stærstum hluta nýttast til niðurgreiðslu á kostnaði við greiningu á sýnum, þannig að greina megi sem flesta gripi, segir í frétt RML.

Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að hvetja bændur í gang af enn meira afli en áður, í að rækta skipulega upp stofna/hjarðir með þolnari arfgerðir gegn riðuveiki. Hinsvegar er verið að setja aukinn kraft í að leita að verndandi arfgerðum og í raun öllum arfgerðum príonpróteinsins sem geta haft áhrif á næmi kinda gegn riðuveiki. Verkefnið er skipulagt í samstarfi við þá aðila sem koma að tengdum rannsóknarverkefnum sem eru þegar í gangi.

Segir frá því að í þessu verkefni verði leitað í sex sætum á príongeninu, þ.e. sæti 136, 137, 138, 151, 154 og 171. „Í öllum þessum sætum nema einu hefur fundist breytileiki sem virðist hafa áhrif á mótstöðu gegn riðuveiki. Í sæti 171 hefur því miður ekkert fundist nema Q hér á landi, en í erlendum kynjum hefur þetta sæti að geyma þann verndandi breytileika (R) sem alþjóðlega er grunnur að útrýmingu riðu með mjög góðum árangri (-> arfgerðin ARR).

Í sæti 137 er ljóst að breytileiki finnst en er mjög sjaldgæfur; til þessa hafa fundist þrjár ær á Sveinsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu og ein ær á Straumi í Hróarstungu sem er ferhyrnd og óskyld hinum. Miklar vonir eru bundnar við að sá breytileiki (T í 137) virki verndandi en rannsóknir á Ítalíu hafa gefið það til kynna.

Um útfærslu verkefnisins „Átaksverkefni – riðuarfgerðagreiningar 2022“ segir að allir sauðfjárbændur geti sótt um þátttöku en þeir þurfa að greiða hluta kostnaðar við hverja greiningu, sem ekki liggi fyrir enn sem komið er, en markmiðið er að það verði innan við 1.000 kr/án VSK á hvert sýni. Bændur munu geta sótt um þátttöku inn á heimasíðu RML og er stefnt að því að opna fyrir pantanir eigi síðar en 20. janúar en sækja þarf um í síðasta lagi 1. febrúar.

Spennandi upplýsingar sem nýtast fyrir ræktunarstarfið

„Hér er um að ræða gríðarlega gott tækifæri til að fá yfirgripsmiklar upplýsingar um tíðni mismunandi arfgerða príonpróteinsins í stofninum. Þetta er jafnframt geysilega gott tækifæri fyrir þá sem hafa hug á að rækta upp þolnari fjárstofn að hafa hér hugsanlega möguleika til að láta skoða stóran hluta af hjörð sinni á hagkvæman hátt. Eftirspurn eftir gripum með lítið næma eða verndandi arfgerðir mun að öllum líkindum færast mjög í auka á næstu árum og því mikilvægt að allir leggi hönd á plóg að framleiða slíka gripi.

Vissulega höfum við enn ekki í höndunum viðurkennda verndandi arfgerð, en það eru sterkar líkur á að „Ítalska útgáfan“ (T137) virki sem slík. Síðan er það ekki útilokað að hin klassíska verndandi arfgerð finnist hér (R171 eða ARR). En meðan málin skýrast með hinar verndandi arfgerðir og hversu mikilvægir breytileikar í öðrum sætum eru, er brýnt að tapa ekki úr stofninum fágætum arfgerðum. Þá er alltaf til mikils unnið að auka tíðni lítið næmu arfgerðarinnar (H í sæti 154) og útrýma áhættuarfgerðinni (V í sæti 136) í hjörðum þar sem riða getur hugsanlega skotið upp kollinum,“ segir á rml.is.

Sjá nánar HÉR 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir