Stíga þarf varlega til jarðar
Ársreikningur Húnabyggðar fyrir árið 2022 var tekinn til síðari umræðu á sveitarstjórnarfundi sveitarfélagsins fyrir rúmri viku en hann er fyrsti ársreikningur sameinaðs sveitarfélags. Blönduós og Húnavatnshreppur sameinuðust fyrir rúmu ári eins og flestum ætti að vera í fersku minni. Í frétt Húnahornsins segir að samkvæmt ársreikningnum nam tap ársins um 220 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 74 milljón króna tapi.
Í bókun segir að megin ástæðan séu verðbætur vegna langtímalána. Efnahagur sveitarfélagsins nam um áramót 4.415 milljónum og eigið fé 1.151 milljónum. Skuldir námu 3.263 milljónum og þar af voru skammtímaskuldir um 800 milljónir.
Í bókun forseta sveitarstjórnar segir:
„Ársreikningur ársins 2022 er fyrsti ársreikningur sameinaðs sveitarfélags og ber þess merki vegna kostnaðar sem fylgir sameiningu en einnig koma framlög vegna sameiningar frá Jöfnunarsjóði. Auk þess hefur upptaka nýrra reikningsskilareglna um samrekstrarfélög nokkur áhrif á ársreikninginn.
Heildarniðurstaðan er viðunandi þar sem rekstrarárið var mjög sérstakt vegna sameiningarinnar og að því viðbættu voru ytri skilyrði óhagstæð og fjármagnskostnaður á langtíma- og skammtímaskuldum verulega meiri en venjulega. Ljóst er að sveitarfélagið þrátt fyrir sókn og áætlanir um ýmiskonar framkvæmdir þarf að stíga varlega til jarðar til að bæta rekstur og helstu lykilmælikvarða sveitarfélagsins.“
Í bókun forseta sveitarstjórnar segir að ársreikningurinn sé mun seinna á ferðinni en áætlað var og helgist það af vinnu sem fylgt hafi sameiningu sveitarfélaganna og að sú vinna hafi verið umfangsmeiri og flóknari en gert var ráð fyrir. Bent er á að ársreikningurinn sé sérstakur að því leyti að sveitarfélögin voru rekin sjálfstætt um það bil hálft síðasta ár og að hlutdeildarfélög og byggðasamlög eru nú reiknuð inn í ársreikninginn í fyrsta sinn. Ársreikningurinn var samþykktur með níu atkvæðum samhljóða.
- - - - -
Heimild: Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.