„Sterkari rödd út á við til eflingar svæðisins,“ segir Jón Gíslason formaður sameiningarnefndar A-Hún.

Jón Gíslason formaður sameiningarnefndar A-Hún.
Jón Gíslason formaður sameiningarnefndar A-Hún.

Sveitarstjórnir Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar skipuðu samstarfsnefnd til að kanna hvaða áhrif sameining sveitarfélaganna myndi hafa á rekstur og þjónustu sveitarfélaganna og hlaut verkefnið nafnið „Húnvetningur“ en allar upplýsingar um verkefnið er hægt að nálgast á samnefndri heimasíðu þess. Í samstarfsnefnd sitja tveir fulltrúar hverrar sveitarstjórnar, auk framkvæmdastjóra sveitarfélaganna og er formaður verkefnishópsins Jón Gíslason, oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps.

Samstarfsnefndin hefur leitað svara við ýmsum spurningum varðandi áhrif mögulegrar sameiningar á fjármál, rekstur, stjórnsýslu og þjónustu við íbúa svæðisins til að meta hvort hagur íbúanna sé betur borgið í sameinuðu sveitarfélagi en í núverandi skipulagi. Kosið verður um sameiningu sveitarfélaganna þann 5. júní nk.

„Þetta er búin að vera löng vegferð sem hófst á árinu 2017 með skipan samstarfsnefndar sem starfaði fram að kosningum 2018 og var þá endurskipuð í byrjun nýs kjörtímabils. Í upphafi komu til starfa við þessa vinnu ráðgjafafyrirtækið Ráðrík en í upphafi árs 2020 var svo ákveðið að skipta um ráðgjafa og RR ráðgjöf ráðin til starfa. Um svipað leyti tók ég við formennsku nefndarinnar af Þorleifi Ingvarssyni, fyrrverandi oddvita Húnavatnshrepps. Það má því segja að tvöfalt gengi hafi komið að þessum sameiningarmálun frá því þær hófust,“ segir Jón og bætir við að þessi vinna hafi því tekið hátt í fjögur ár sem verði að teljast talsvert langur tími. Hann segir ýmsar ástæður liggja þar að baki en það sé þó ljóst að ekki hafi náðst upp kraftur eða stemming í þessar viðræður fyrr en RR ráðgjöf fór að leiða þá vinnu en síðan hefur heimsfaraldur Covid-19 tafið vinnuna og þennan feril verulega.

„Á vordögum 2020 var ákveðið að leita eftir því við sveitarfélögin í Vestur -Húnavatnssýslu og Skagafirði hvort vilji væri fyrir þátttöku í viðræðunum með það að markmiði að sameina allt Norðurland vestra eða stóran hluta þess í eitt sveitarfélag en fyrir því var enginn áhugi,“ segir Jón.

Sterkari rödd út á við
Hvaða mál það voru sem erfiðust þóttu að ná samstöðu um í þessari vinnu segir Jón hafa verið þau er varðar staðsetningu og fyrirkomulag stjórnsýslu og að taka lokaákvörðun um að færa vinnuna úr könnunarviðræðum í formlegan sameiningarferil sem endaði með ákvörðun um kosningar þann 5. júní næstkomandi en sú ákvörðun var tekinn af öllum sveitarstjórnum sveitarfélaganna í október síðastliðnum. „Einnig trufluðu hugmyndir stjórnvalda um hvort lögfesta ætti lámarksíbúafjölda í sveitarfélögum eða ekki verulega fyrir í þessari vinnu.

Sú barátta sem unnin hefur verið í samstarfsnefndinni, um að fá stjórnvöld að borðinu með einhverja innspýtingu í nýtt sveitarfélag í atvinnu og samgöngumálum, hefur verið mjög erfið og lítinn árangur borið enn sem komið er. Sú vinna er enn í fullum gangi og skilar vonandi einhverju að lokum, sem er mjög mikilvægt til að hægt sé að sýna fram á að sameinað sveitarfélag sé öflugra gagnvart hinu opinbera en sitt í hvoru lagi.“

Aðspurður hver helstu málin hafi verið sem allir eru sammála um, er að við sameiningu yrði stjórnsýslan skilvirkari gagnvart þeim verkefnum sem nú eru unnin í byggðasamlögum og möguleikar sköpuðust til mun meiri sérhæfingar og faglegri vinnu í stjórnsýslunni.

„Einnig eru allir sammála um að sameinað sveitarfélag sé með sterkari rödd út á við til eflingar svæðisins í heild að minnsta kosti til lengri tíma litið. Sameining grunnskólanna á Húnavöllum og á Blönduósi hefur verið talinn eðlilegt skref ef af sameiningu verður og þar með nauðsyn þess að nýta Húnavallasvæðið og þær miklu og góðu fasteignir sem þar eru undir nýja og öfluga starfsemi sem skapað gæti sem allra flest atvinnutækifæri og ný tækifæri í sameinuðu sveitarfélagi.

Í því tilefni hefur starfshópur á vegum samstarfsnefndarinnar verið að störfum og útkoman er að vinna að því að Umhverfisakademía verði staðsett á Húnavöllum sem yrði í formi einhverskonar lýðskóla í umhverfisfræðum í samstarfi við hótelrekstur sem nú þegar starfar á ársgrundvelli á staðnum. Þetta kemur til meðal annars vegna þess að samstarfsnefndin hefur verið sammála um að stefna að því að nýtt sveitarfélag í A-Hún. verði umhverfisvænsta sveitarfélag landsins.“

Ertu bjartsýnn á að sameiningartillagan verði samþykkt?
„Ég leyfi mér ekkert annað en að vera bjartsýnn á að þetta gangi en það sér ekki enn til lands í kynningarmálunum vegna Covid faraldursins en við höfum hrakist nær og nær kjördegi með aðal kynningarfundina sem vonandi komast á í þéttbýliskjörnum í þessari viku og um mánaðarmótin í dreifbýlissveitarfélögunum. Það skiptir mjög miklu máli að íbúar geti tekið upplýsta ákvörðun á kjördag,“ segir Jón sem trúir því að við sameiningu geti myndast slagkraftur og samstaða til sóknar á ýmsum sviðum í Austur-Húnavatnssýslu sem hann segir sannarlega ekki veita af. „Við höfum einfaldlega ekki efni á því að láta ekki á það reyna.“

En hvað gæti formanni sameiningarnefndar hugnast að nýtt sveitarfélag myndi heita ef kosningar færu svo?
„Nýtt sveitarfélag, sem nær yfir alla Austur-Húnavatnssýslu, á að sjálfsögðu að heita ,,Húnabyggð”. Ég er búinn að syngja þjóðsöng okkar Austur-Húnvetninga með Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, Húnabyggð, lag Guðmanns Hjálmarssonar við texta Páls Kolka, nógu oft til að átta mig á því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir