Stefnir í fróðlega og skemmtilega samkomu í Kakalaskála

Flugumýrarbrenna og hefnd Gissurar kallast viðburður helgaður Sturlungu sem fram mun fara í Kakalaskála í Skagafirði laugardaginn 29. október og hefst kl. 14:00. Í eldlínunni verða miklir kappar og sérfræðingar í Sturlungatímum; Óttar Guðmundsson geðlæknir, Einar Kárason rithöfundur og Sigurður Hansen staðarhaldari.

„Það verður sennilega mitt hlutskipti að tala um aðdragandann að Flugumýrarbrennu og því sem var að gerast, lauslega, en síðan munur þeir fjalla um brennuna og sérstaklega afleiðingarnar og hefndirnar. Ég hef grun um að það verði farnar svona aðrar leiðir í því en hefðbundið er. Þeir eru þekktir fyrir það, bæði rithöfundurinn og geðlæknirinn, að kafa svolítið ofan í aðstæður og hugsunarhátt þeirra sem í hlut áttu þannig að ég held að þetta geti verið góð byrjun fyrir þá sem vilja koma sér inn í söguna,“ segir Sigurður Hansen í spjalli við Feyki. „Ég efast ekki um að þarna verði líka skemmtilegar umræður milli okkar og jafnvel fleiri sem gætu tekið þátt í þessu.“

Sigurður segir að viðburðurinn verði í tveimur hlutum og kaffispjall á milli og á von á því að viðburðurinn geti orðið bæði fróðlegur og skemmtilegur. „Ég veit ekki hversu mikið verður kafað ofan í Brennuna en það verður sjálfsagt kafað svolítið niður í sálarástand fólks á þessum tíma.“

Aðgangseyrir er krónur 2000. Boðið verður upp á kaffi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir