Starfshópur um Umhverfisakademíu á Húnavöllum skilar af sér skýrslu
Við undirbúning kosningar um sameiningu fjögurra sveitarfélaga í austur Húnavatnssýslu kom fram sú hugmynd að koma á fót námi í umhverfisfræðum á Húnavöllum. Hugmyndin er liður í því að gera fyrirhugað nýtt sveitarfélag að umhverfisvænasta sveitarfélagi landsins. Til að sú framtíðarsýn verði að veruleika þarf að eiga sér stað mikil stefnumótun og vinna við aðgerðaráætlun.
Ein helsta aðgerðin verður að koma á kopp námi í umhverfisfræðum í nýju sveitarfélagi og vera þar með fyrsti skólinn á Íslandi sem einblínir eingöngu á umhverfisfræði. Skipaður var starfshópur þann 23. Febrúar sl. til að leggja mat á hugmyndina, greina helstu kosti og ókosti, tækifæri og ógnir o.fl. Starfshópurinn var skipaður: Alexöndru Jóhannesdóttur sveitastjóra á Skagaströnd, Einari K. Jónssyni sveitastjóra Húnavatnshrepps, Magnúsi Jónssyni verkefnastjóra hjá SSNV og Magnúsi B. Jónssyni fyrrv. Sveitastjóra á Skagaströnd.
Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu í apríl en 27. Maí birtist hún á hunvetningur.is.
Í lokaorðum starfshópsins kemur eftirfarandi fram:
“Starfshópurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að uppsetning Umhverfisakademíu á Húnavöllum sé bæði gerlegt og áhugavert verkefni en á engan veg einfalt í framkvæmd. Til að hægt sé að gera sér vonir um að stuðningur fáist frá ríkisvaldinu til undirbúnings og síðan árlegs rekstrar þurfi að ríkja samstaða í samfélaginu í A-Hún um málið. Með tillögu til sveitarstjórna sé í raun látið á það reyna hvort vilji er til að standa að málinu og gera það svo úr garði að mögulegt sé að það raungerist. Starfshópurinn leggur því til að Umhverfisakademía að Húnavöllum verði stofnuð.”
"Litið var til Lýðskólans á Flateyri, sem fyrirmynd að rekstrarmódeli. Á Flateyri er í dag rekinn myndarlegur skóli þar sem þekking, færni og hæfni nemenda verða til með þátttöku þeirra í verkefnum sem tengjast atvinnulífi, samfélagi og menningu. Ekki ósvipað og hugmyndafræði Umhverfisakademíunnar gengur út á. Miðað er við að undirbúningur að stofnun akademíunnar byrji á seinni helming ársins 2021 og ljúki vorið 2022 og að skráning nemenda geti hafist þá. Stefnt er á að nemendur hefji nám haustið 2022. Gert er ráð fyrir ráðningu skólastjóra eða verkefnastjóra sem allra fyrst til að vinna að undirbúningi stofnunar akademíunnar," segir á vef sameiningarnefndar, hunvetningur.is.
Hægt er að nálgast skýrslu starfshópsins í heild sinni hér.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.