Spennandi málþing í Kakalaskála
Á morgun laugardaginn 31.ágúst er afar spennandi málþing í Kakalaskála, sem staðsettur er á bænum Kringlumýri í Blönduhlíð Skagafirði. Málþingið hefst klukkan 14 og er öllum opið.
Feykir hafði samband við Guðrúnu Ingólfsdóttur sem leiddi okkur í allann sannleik um málþingið sem snýst að mestu um efni frá Sturlungaöld. Brynja Þorgeirsdóttir segir frá elstu íslensku lækningabókinni sem varðveist hefur. Í bókinni er fjallað um ýmsa sjúkdóma og lækningar við þeim en margt af því þykja ekki góð vísindi í dag. Gísli Sigurðsson lýsir því hvernig stjörnuhiminninn og þau goðsögulegu tákn sem þar eru endurspegla það sem fornsögurnar segja af fólki hér á jörðinni. Torfi H. Tulinius fjallar um húmor út frá samskiptum þeirra feðga Sighvats Sturlusonar og Sturlu Sighvatssonar og valdapíramídann í samfélagi Sturlungaaldar. Að endingu talar Brynhildur Þórarinsdóttir um fornsögurnar frá sjónarhóli barna og hvernig megi matreiða þær fyrir þau.
Málþingið er öllum opið og er fyrst og fremst fyrir fróðleiksfúsan almenning. Þó að það séu fræðimenn sem tala gera þeir það á mjög alþýðlegan hátt. Allt eru þetta reyndir og mjög góðir fyrirlesarar.
Árleg málþing um íslensk fræði hafa verið haldin í Kakalaskála frá 2013. Hugmyndin kom upphaflega frá félaginu Á Sturlungaslóð sem stóð fyrir fyrstu málþingunum. Félagið kemur ekki lengur að þessum málþingum og höfum við Eiríkur Rögnvaldsson ásamt Maríu Guðmundsdóttur og Sigurði Hansen í Kakalaskála séð um þau í mörg ár. segir Guðrún okkur að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.