Smitum fjölgar í Skagafirði – Ríkisstjórnin boðar hertar aðgerðir á landamærum
Í fyrradag gaf aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra út nýja stöðutöflu yfir fjölda þeirra sem eru í einangrun eða sóttkví vegna Covid á svæðinu. Enn fjölgar smituðum en staðan hefur þó batnað í Húnavatnssýslum þar sem smitaðir teljast nú tveir en fjölgað hefur nokkuð í Skagafirði þar sem 14 eru smitaðir.
Eins og sjá má á töflunni hér til hliðar þá voru 16 í einangrun á Norðurlandi vestra þann 4. ágúst og 46 í sóttkví. Samkvæmt uppfærðum tölum á Covid.is eru nú 17 í einangrun á svæðinu og 53 í sóttkví. Tölur yfir landið er nú þær að 1421 aðili er í einangrun með Covid-smit, 2315 eru í einangrun og 1148 í skimunarsóttkví. Nú er 22 á sjúkrahúsi. Heldur færri smit greindust í gær, eða 103, miðað við daginn á undan þar sem smit reyndust fleiri en 150.
Í skilaboðum frá aðgerðastjórn ANV segir: „Vegna sumarleyfa hefur okkur ekki tekist að uppfæra töfluna eins oft og við hefðum kosið, en við reynum að koma til móts við íbúa eins og unnt er. Enn eru mjög margir að greinast á landsvísu og því þurfum við öll að huga vel að okkar persónulegu sóttvörnum þ.e. að spritta, halda fjarlægð og nota grímu þar sem það á við. Eins að fara í sýnatöku ef við erum með flensueinkenni og svo halda okkur til hlés þar til niðurstaða fæst. Gerum þetta saman.“
Hertar aðgerðir á landamærunum
Þrátt fyrir hertar aðgerðir frá því 25. júlí hefur smituðum farið ört fjölgandi, hvort sem þeir hafa verið bólusettir eða ekki, og hefur síðustu daga verið hvatt til þess að stjórnvöld herði aðgerðir enn frekar. Nú í hádeginu kynnti ríkisstjórnin síðan hertar aðgerðir á landamærunum en frá og með 16. ágúst þurfa bólusettir farþegar með tengsl við Ísland að fara í sýnatöku innan 48 klukkustunda frá komu til landsins.
Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir:
„Einstaklingar með tengsl við Ísland teljast:
- Íslenskir ríkisborgarar
- Einstaklingar búsettir á Íslandi
- Einstaklingar með atvinnuleyfi á Íslandi
- Umsækjendur um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi
Umræddir farþegar munu ekki þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að fólk fari annað hvort í hraðpróf (antigen) eða PCR-próf, en nánara fyrirkomulag verður unnið í samráði við sóttvarnalækni. Þá verður hægt að fara í sýnatöku annað hvort á landamærum eða á sýnatökustöð innan tímamarkanna og verður sýnatakan gjaldfrjáls. Heimilt verður að sekta þá einstaklinga sem ekki fara í sýnatöku innan tiltekins tíma.
Samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis hafa um 90% þeirra einstaklinga sem greinst hafa með COVID-19 frá 1. júlí íslenska kennitölu. Mikilvægt er að tryggja varnir gegn nýjum afbrigðum veirunnar og því er þessi ákvörðun tekin. Áfram verður gerð krafa um framvísun neikvæðs COVID-prófs á landamærum en tvöföld sýnataka með nokkurra daga millibili hefur reynst vel í faraldrinum.
Unnið verður að nánari útfærslu framkvæmdarinnar næstu daga og m.a. verður óskað eftir mati sóttvarnalæknis á þeim hópi sem aðgerðirnar ættu að takmarkast við.“
Í frétt á mbl.is kemur fram að í máli Svandísar Svavarsdóttur að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hertar takmarkanir innanlands, né heldur hvað taki við 13. ágúst þegar núgildandi takmarkanir falla úr gildi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.