Smitum fjölgar á Norðurlandi vestra

Mynd af Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Mynd af Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Samkvæmt nýrri stöðutöflu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra hefur orðið töluverð aukning í smitum í umdæminu þar sem 97 einstaklingar eru skráðir í einangrun. Enginn er í sóttkví enda búið að fella hana niður með reglugerð sem birt var sl. föstudag en þá losnuðu hátt í 10.000 manns undan þeim sóttvarnaraðgerðum á landsvísu.

Samkvæmt nýjustu tölum á Covid.is eru 10.160 manns í einangrun á landinu, 53 á sjúkrahúsi og tveir á gjörgæslu. Eins og nærri má geta eru flestir smitaðra á höfuðborgarsvæðinu eða 6081 en næstflestir á norðurlandi eystra 1536. Norðurland vestra er með fæsta í einangrun eða 97 og 140 á Austurlandi sem koma næst hvað fjölda varðar.

Á Norðurlandi vestra eru flest smitin á Sauðárkróki 30 alls, 18 á Skagaströnd, 14 í dreifbýli Varmahlíðar, 12 í dreifbýli Sauðárkróks og 11 á Blönduósi. Mun færra er á öðrum stöðum og enginn er skráður í póstnúmer 500 né 566.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir